Innlent

Sigurður og Hreiðar kunna að þurfa að greiða skaðabætur úr eigin vasa

Almennir lántakendur hjá Kaupþingi ætla að stefna Sigurði Einarssyni og Hreiðari Má Sigurðarsyni, fyrrverandi stjórnendum Kaupþings, fyrir dóm til þess að fá viðurkennda persónulega skaðabótaskyldu þeirra. Áfrýjunarnefnd neytendamála úrskurðaði í dag að skilmálar myntkörfulána Kaupþings væru ólöglegir.

Málið tengist kæru fólks á hendur Nýja og Gamla Kaupþingi vegna lána í erlendri mynt. Björn Þorri Viktorsson, lögmaður, fer fyrir fólkinu. Hann telur að lánin og raunar fleiri lán standist ekki lög. Fleiri bíða á hliðarlínunni, eftir niðurstöðu í málinu. En ýmsum verður stefnt vegna þess þar á meðal fyrrverandi stjórnsendum Kaupþings.

„Af því það er ekki gerðar sérstakar fjárkröfur í málinu að þá er þeim Sigurði og Hreiðari Má stefnt inn til réttargæslu. Með því áskilja menn sér þá til þess að draga þá að málinu þar sem það kunni að vera gerðar fjárkröfur á hendur þeim persónulega síðar."

Stefnurnar verða afhentar eftir helgi. Björn Þorri segir að seinlega hafi gengið að hafa upp á Sigurði Einarssyni sem er fluttur úr landi.

„Það var enginn opinber aðili hér á landi sem gat veitt okkur upplýsingar um það hvar maðurinn byggi." segir Björn Þorri.

Þá hefur Áfrýjunarnefnd neytendamála staðfest niðurstöðu Neytendastofu um að skilmálar á myntkörfulánum Kaupþings hafi verið ólögmætir. Neytendasamtökin kvörtuðu til Neytendastofu fyrir allnokkru vegna skjólstæðings síns. Nýja Kaupþing íhugar að fara með málið fyrir dómstóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×