Innlent

Birgir: Leið ríkisstjórnarinnar mun dýpka kreppuna

Mynd/Pjetur
„Hækkun skatta á heimilin og fyrirtækin í landinu dregur úr getu þeirra til að takast á við stöðu, sem þegar er mjög erfið. Stór hluti íslenskra fyrirtækja berst í bökkum og heimilin berjast við að mæta stóraukinni skuldabyrði á sama tíma og tekjur fara lækkandi. Við þessar aðstæður geta skattahækkanir ekki haft aðrar afleiðingar en að dýpka kreppuna," segir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í pistli sem birtist á amx.is.

Þingmaðurinn segir skatthækkanirnar muni einnig hafa þau áhrif að efnahagslífið verði lengur að taka við sér og seinka þannig batanum. Hann segir að ráð ríkisstjórnarinnar til að koma efnahagslífinu í gang að nýju eru skattahækkanir á sama tíma og ríkisstjórnir í nágrannalöndunum reyna að ná efnahagslífi sínu upp úr lægðinni með því að lækka skatta. „Þær reyna að örva efnahagslífið en stjórnvöld hér á landi ætla sér að letja það."

Birgir segir greinilegt að ríkisstjórnin hafi valið þá leið sem síst er til þess fallin að hjálpa íslensku efnahagslífi á erfiðum tímum. Hann segir að gegn þessum áformum verði að berjast af fullum krafti.

„Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur þegar lagt fram margþættar efnahagstillögur, sem sýna að til er valkostur. Leið ríkisstjórnarinnar er ekki óhjákvæmileg eða ill nauðsyn á erfiðum tímum, eins og talsmenn hennar vilja vera láta. Hún byggist á hugmyndafræði en ekki hagsýni. Hér er á ferðinni tilraun, sem getur orðið afar dýrkeypt fyrir íslensku þjóðina," segir þingmaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×