Innlent

Hrannar undrast þögn Morgunblaðsins

Magnús Már Guðmundsson skrifar

Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, undrast að Morgunblaðið hafi ekki gert afsökunarbeiðni Jóhönnu Sigurðardóttur skil blaðinu í dag. Hann gagnrýnir einnig fréttamat Ríkissjónvarpsins.

„Ætli það sé tilviljun að Morgunblaðið nefnir afsökunarbeiðni forsætisráðherra til þjóðarinnar ekki einu orði?" segir aðstoðarmaðurinn á Facebook-síðu sinni.

Jóhanna bað á Alþingi í gær þjóðina afsökunar á vanrækslu og andvaraleysi stjórnvalda í aðdraganda bankahrunsins. „Þjóðin er í sárum. Hún hefur liðið þjáningar og skaða sem enn sér ekki fyrir endann á. Þess vegna á hún heimtingu á afsökunarbeiðni. Það er síðan rannsóknaraðila og dómstóla að leggja grunn að, og sjá svo til, að þeir sem ábyrgð bera axli hann," sagði Jóhanna.

Um fréttatíma Ríkissjónvarpsins í gær segir Hrannar: „Í fréttum sjónvarps telst augnsjúkdómur gorillu merkilegri frétt en afsökunarbeiðni forsætisráðherra. Magnað fréttamat!"






Fleiri fréttir

Sjá meira


×