Lífið

Fréttakona flýgur á fund við Dalai Lama

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þóra Arnórsdóttir var stödd í Lundúnum þegar fréttastofa náði tali af henni. Mynd/ RÚV.
Þóra Arnórsdóttir var stödd í Lundúnum þegar fréttastofa náði tali af henni. Mynd/ RÚV.
Þóra Arnórsdóttir fréttamaður á RÚV lagði land undir fót í morgun og er á leið til fundar við Dalai Lama í Indlandi. Þóra var stödd á flugvelli í Lundúnum, ásamt Gauki Úlfarssyni myndatökumanni, þegar fréttastofa náði tali af henni.

„Við eigum 45 mínútur með honum þann 18 maí, sem myndi vera á mánudaginn," segir Þóra. Hún segir að ástæðan fyrir því að hún hafi viljað kíkja út í stað þess að hitta Dalai Lama þegar að hann kemur hingað til lands um mánaðamótin vera þá að hún vildi kynnast samfélagi hans. „Þetta tíbetska samfélag í Dharamshala er svo stór hluti af honum og er stórmerkilegt út af fyrir sig. Þannig að fyrir utan það að hitta hann erum við að fara í alls kyns tökur og viðtöl dagana á undan og eftir. Og úr þessu á að koma svona 50 mínútna mynd," segir Þóra. Þau Gaukur verði því í tökum sunnudag, mánudag og þriðjudag.

Þóra segir að hugmyndin að ferðinni hafi kviknað þegar að hún hafi hitt hópinn sem er að fá Dalai Lama til Íslands. „Ég hitti þau einhvern tímann í haust og datt í hug að leggja inn umsókn sem ég bjóst ekkert við að yrði vel tekið," segir Þóra. Hún hafi hins vegar fengið svar mörgum mánuðum síðar og þá sett allt á fullt.

Þóra segir að RÚV greiði hluta af ferðinni, kaupi til dæmis sýningarréttinn af henni. „En mitt markmið er að reyna að koma út á sléttu. Ég er búin að senda styrkbeiðnir hingað og þangað en það er svo sem ekki um auðugan garð að gresja," segir Þóra. Hún segist hafa fengið nokkrar neitanir við styrkbeiðnum en sé enn að bíða eftir svörum annarsstaðar frá.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.