Innlent

Bíður enn milli vonar og ótta

Paul, Rosemary og Fídel smári Foreldrarnir vinna og búa í Reykjavík, en vita ekki nema þau þurfi að fara frá landinu hvenær sem er með skömmum fyrirvara. Fídel Smári fær ekki að fara á leikskóla fyrr en úr því er skorið.Fréttablaðið/Anton
Paul, Rosemary og Fídel smári Foreldrarnir vinna og búa í Reykjavík, en vita ekki nema þau þurfi að fara frá landinu hvenær sem er með skömmum fyrirvara. Fídel Smári fær ekki að fara á leikskóla fyrr en úr því er skorið.Fréttablaðið/Anton

Hælisleitandinn Paul Ramses hefur ekki fengið svar frá Útlendingastofnun um hvort hann fái að vera áfram á landinu eða ekki. Hann sótti fyrst um hæli hér í febrúar 2008.

Ramses og kona hans Rosemary eru bæði í vinnu og leigja íbúð í miðbænum. Sonur þeirra, Fídel Smári, er að verða átján mánaða gamall, en honum hefur þegar verið synjað um leikskólavist, þar sem foreldrar hans eru utan kerfis.

Lögmaður Ramses, Katrín Theódórsdóttir, mótmælti þessu fyrir hönd fjölskyldunnar og benti leikskólasviði borgarinnar á að foreldrar Fídels Smára greiddu skatt og útsvar í Reykjavík. Leikskólasvið féllst þá á að gera „undan­tekningu frá ófrávíkjan­legu skilyrði", þannig að Fídel fær pláss hjá dagforeldri niðurgreitt frá borginni. Hann fær samt ekki að vera á leikskóla.

Katrín segist fegin þessari niðurstöðu, þótt hálfur sigur sé. Einnig virði hún það við Útlendingastofnun að taka ekki Paul Ramses fram fyrir röð hælisleitenda, þótt mál hans hafi fengið mikla umfjöllun á sínum tíma. Hins vegar segi það meira en mörg orð um ástand útlendingamála hér á landi hversu langan tíma þetta taki.

„Ég fullyrði að þessi vinnsluhraði og lengd málsmeðferðarinnar er brot á stjórnsýslulögum. Það á að afgreiða mál eins fljótt og auðið er. En allir hælisleitendur þurfa að bíða svona lengi eftir frumákvörðun í hælismálum og síðan, ef þeir kæra neitunina, mega þeir bíða í átján til 24 mánuði til viðbótar eftir afgreiðslu dómsmálaráðuneytis," segir hún.

Eftir að Ramses sótti um hæli í febrúar var honum synjað um það að kvöldi 2. júlí og boðið að gista hjá lögreglu. Daginn eftir var hann sendur til Ítalíu, en kona hans og barn voru skilin eftir á Íslandi.

Mikið var fjallað um málið í fjölmiðlum og mótmælt fyrir utan dómsmálaráðuneytið, uns ný gögn í málinu bárust Útlendingastofnun, og Ramses var kallaður til hælismeðferðar á Íslandi. Þetta var 25. ágúst 2008.

klemens@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×