Lífið

Adrenalínflóð á kvikmyndahátíð Íslenska alpaklúbbsins

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Pascal Lebeau

Hin árlega Banff-fjallamyndahátíð fer fram hér á landi í kvöld og annað kvöld. Það er Íslenski alpaklúbburinn sem hefur veg og vanda af hátíðinni en hún hefur verið haldin á Íslandi nokkur undanfarin ár. Sýnt verður úrval kvikmynda þar sem áherslan er á ævintýramennsku fólks sem leggur stund á jaðaríþróttir en það sem ber hæst af slíkum íþróttum á Banff-sýningunni er klifur, svifvængjaflug, snjóbrettaiðkun, fjallaskíði, fjallahjól, BASE-stökk og ýmislegt fleira sem kemur adrenalíni og blóði rækilega á hreyfingu í iðkendum jafnt sem áhorfendum.

Nafn hátíðarinnar er dregið af þorpinu Banff í samnefndum þjóðgarði í Kanada sem er vinsæll dvalarstaður jaðaríþróttamanna og annarra sem láta sér hlaupabrettið í ræktinni ekki nægja til að kynnast hinum æðri nautnum lífsins; spennu og á stundum lífshættulegu sprikli við aðstæður sem nægja til að vekja gæsahúð hjá þeim sem ekki eru innvígðir.

MYND/Eder Rainer

Virtasta hátíðin í þessum geira

„Þetta er virtasta kvikmyndahátíðin í þessum geira og frábært að geta boðið upp á þessar sýningar hér á landi. Það er fjöldinn allur af myndum sem keppa á hverju ári úti í Banff og rjóminn af þeim er síðan sendur á flakk um heiminn," segir Björgvin Hilmarsson, stjórnarmaður í Íslenska alpaklúbbnum, og bætir því við að enginn annar viðburður sameini jafnmargt áhugafólk um jaðaríþróttir hér á landi. Björgvin hefur sjálfur lagt stund á fjallamennsku, ís- og klettaklifur í mörg ár og sammælist félögum sínum í klúbbnum um það að fátt hafi veitt honum meiri ánægju og tilfinningu fyrir lífinu sjálfu.

 

Banff-hátíðin, sem í ár er haldin í samvinnu við 66° Norður, er að sögn Björgvins orðin ómissandi viðburður fyrir stóran hóp fólks sem bíður hennar með óþreyju ár hvert. „Þarna kemur saman kjarninn sem stundar þessi jaðarsport á Íslandi sem og aðrir sem eru einfaldlega að sækjast eftir að sjá skemmtilegar myndir sem sýna ævintýri fólks sem kann að njóta lífsins til hins ýtrasta. Náttúran leikur alltaf stórt hlutverk og eiga þessar myndir það sammerkt að fjalla á einhvern hátt um samspil fólks og náttúru."

MYND/Wills Young

Ríflega 300 myndir á ári

Ríflega 300 kvikmyndir eru sendar á Banff-hátíðina ár hvert og spannar efni þeirra allt frá háfjallaklifri og skíðamennsku til snæhlébarða og sherpa. Þátttakendur eru frá framhaldsskólanemum til virtra atvinnumanna í kvikmyndagerð frá National Geographic og BBC. Það má því ljóst vera að enginn ætti að sóa tíma sínum á sýningunni sem haldin er í sal Ferðafélags Íslands, Mörkinni 6, kl. 20 í kvöld og annað kvöld.

 

 

Dagskrá kvöldanna má finna hér.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.