Innlent

Eftirför lögreglu lauk með ákeyrslu í Hvalfirði

Sólmundur Hólm Sólmundarson skrifar
Eftirförin stóð í um 45 mínútur.
Eftirförin stóð í um 45 mínútur.

Eftirför sem lögregla veitti grárri Toyota Yaris bifreið lauk fyrir um tuttugu mínútum. Lögregla ók þá utan í bifreiðina til móts við bæinn Stóra Lambhaga í Hvalfirði með þeim afleiðingum að hún lenti utan vegar og ofan í skurði. Eftirförin stóð í um 45 mínútur.

Bifreiðinni var stolið við Shell bensínstöðina í Árbæ um miðjan daginn í dag. Eigandi bifreiðarinnar fór þá inn á bensínstöðina til að greiða fyrir áfyllinguna en á meðan lét þjófurinn til skarar skríða.

Snemma á áttunda tímanum hófst svo eftirför lögreglu. Bifreiðinni var ekið á ógnarhraða um Breiðholt og á göngustíga í Elliðaárdal svo gangandi vegfarendur áttu fótum sínum fjör að launa. Síðar var bifreiðinni ekið yfir Elliðaárbrúnna, þaðan út á Reykjanesbraut, upp Ártúnsbrekku og svo áleiðis Vesturlandsveginn.

Að sögn varðstjóra lögreglu stofnaði þjófurinn samborgurum sínum í stórhættu en töluverð umferð er um Vesturlandsveg til Reykjavíkur.

Ökumaður Yaris bifreiðarinnar var fluttur með sjúkrabifreið til Reykjavíkur en ekki liggur fyrir hversu mikil slasaður hann er. Bíllinn er ónýtur.

Vísir ræddi við eiganda bifreiðarinnar í dag sem sagðist mundu þekkja manninn hvar sem er.




Tengdar fréttir

Bíl stolið meðan eigandinn borgaði fyrir bensín

Fólksbíl var stolið við bensínstöð Shell við Hraunbæ um tvöleytið. Á meðan að eigandi bílsins var inni að greiða fyrir bensín fór maður inn í bílinn og ók honum á brott.

Lögregla veitir Yaris eftirför

Allavega sex lögreglubílar og að minnsta kosti eitt mótorhjól veita nú grárri Yaris bifreið eftirför á Vesturlandsvegi að sögn tveggja vegfarenda sem höfðu samband við fréttastofu. Ekki er vitað hvort um er að ræða Yaris bifreið sem stolið var í dag á Shell bensínstöð í Árbæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×