Innlent

InDefence: Indriði fer með rangt mál

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Indriði H. Þorláksson
Indriði H. Þorláksson Mynd/ÞÖK

InDefence hópurinn, sem talsvert hefur látið að sér kveða síðan Icesave samningaviðræðurnar komust í hámæli, segir Indriða H. Þorláksson hafa farið með rangt mál í Kastljósinu fyrr í kvöld. Þar sat hann á móti Eiríki S. Svavarssyni, lögmanni og meðlimi InDefence í viðtali um Icesave samninginn.

Indriði, sem er aðstoðarmaður fjármálaráðherra og undirritaði samninginn, fullyrti að endurupptökuákvæði Icesave samningsins væri ekki bundinn mati AGS á greiðslugetu Íslands, heldur muni íslendingar sjálfir meta greiðslugetu sína og þannig vekja upp umrætt ákvæði.

„Það er náttúrulega ekki rétt að við séum háð einhverju mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins," sagði Indriði í Kastljósinu.

Þegar Eiríkur benti á að það stæði í samningnum þvertók Indriði fyrir það: „Það stendur ekki í samningnum. Það stendur að ef okkar staða miðað við mat AGS á henni eins og hún var síðastliðið haust gefi tilefni til endurskoðunar. Við þurfum ekkert að fá AGS til að meta það, þetta er bara samanburður við þessa stöðu."

„Það er okkar mat sem gildir í þessu efni," sagði Indriði að lokum um þetta mál.

Í 15. grein samningsins við Hollendinga og 16. grein samningsins við Breta segir hins vegar að endurskoðunarákvæði samningsins verði virkt ef að greiðslustaða Íslands hafi versnað samkvæmt síðustu útgefnu skýrslu AGS á þeim tíma miðað við skýrslu AGS frá 19. nóvember 2008.

Orðrétt hljóðar 16. grein samningsins við Breta, sem ber yfirskriftina Change in circumstances og fjallar um endurskoðun samningsins, svona: „This paragraph '16 applies if at any time the then most recently published Article lV review by the IMF in relation to lceland states that a significant deterioration has occurred in the sustainability of the debt of lceland, relative to the assessment of such sustainability by the IMF as of 19 November 2008."

 

Greinin í samningi Hollendinga er áþekk.


Tengdar fréttir

Segja þjóðréttarlega stöðu Íslands í hættu

InDefence hópurinn segja ekkert skjól vera í Icesave samningunum og að þjóðréttarleg staða Íslands sé í hættu vegna þeirra. Hópurinn hefur undir höndum samning hollenska ríkisins annars vegar og Tryggingasjóðs innistæðueigenda, fjárfesta og íslenska ríkisins hins vegar um lausn Icesave deilunnar.

Landsvirkjun lögð að veði með Icesave

Allar eigur íslenska ríkisins eru lagðar að veði með Icesavesamkomulaginu, þar á meðal Landsvirkjun. Þetta er mat Eiríks Svavarssonar, lögmanns, sem hefur síðustu daga legið yfir samningnum sem gerður var við Hollendinga. Eiríkur Svavarssonar er í InDefence hópnum og hefur víðtæka reynslu af alþjóðasamningum. Hann segir sextándu grein laganna kveða á um þetta.

Þingmenn fá að sjá samkomulagið um Icesave í dag

Icesave samningarnir verða kynntir fyrir alþingismönnum í dag og í kjölfarið verða þeir gerðir almenningi opinberir. Samningsaðilum hefur verið greint frá þessari ákvörðun íslenskra stjórnvalda. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Jóhanna: Ekki hætta á þjóðargjaldþroti

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir engar líkur vera á þjóðargjaldþroti með Icesave-samningunum. Hún sagði mjög sérkennilegt að halda öðru fram. Verið sé að hræða þjóðina. Þetta kom fram í máli Jóhönnu á Alþingi við fyrirspurn Péturs Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Stærsta kúlulán Íslandssögunnar

„Fjármálaráðherra tekur stærsta kúlulán Íslandssögunnar og hann mun uppskera eins og bankarnir,” sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, við utandagskrárumræður um Icesave samninginn nú undir kvöld. Sigmundur var málshefjandi í umræðunum og gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega fyrir framgang hennar í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×