Erlent

Grunur um stórkostlegt misferli bandarískra herforingja

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Hermaður á ferð í Írak.
Hermaður á ferð í Írak.

Bandarísk yfirvöld hafa sett í gang opinbera rannsókn á því sem gæti orðið umfangsmesta fjársvikamál í sögu landsins þegar upp er staðið en rannsóknin beinist að umsvifum nokkurra háttsettra herforingja Bandaríkjahers í Írak og meðferð þeirra á heljarmiklum fjárupphæðum sem renna áttu til uppbyggingarinnar þar í landi eftir að valdatíð Saddams Husseins lauk.

Breska blaðið Independent greinir frá þessu og segir að upphæð, sem gæti verið yfir 50 milljarðar dollara, vanti hreinlega í bókhaldið. Þetta er jafnvirði tæpra 6.000 milljarða króna og munar um minna. Meðal þeirra sem böndin berast að er hershöfðinginn Robert Stein Jr sem tók við fleiri vörubrettum af hundrað dollara seðlum og lét meðal annars mynda sig við hlið seðlafjalla.

Torkennilegt þykir að þrátt fyrir allt uppbyggingarféð sjáist ekki aðrir byggingarkranar í Baghdad en þeir sem vinna við byggingu nýs bandarísks sendiráðs þar. Ljóst er að rannsakendurnir eiga mikið verk fyrir höndum því bókhald Bandaríkjahers í Írak er víst á mörkum þess að vera til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×