Innlent

Réttlætanlegt að takmarka mótmæli við einkaheimili

Þegar mótmælendur safnast saman fyrir utan einkaheimili er talið réttlætanlegt að takmarka fundarfrelsi og tjáningarfrelsi með aðgerðum lögreglu, segir lagaprófessor við Háskóla Íslands. Sjö manns voru handteknir í gær við mótmæli fyrir utan heimili forstjóra Útlendingastofnunar.

Alls voru um þrjátíu mótmælendur á svæðinu, en mótmælin fóru fram seinnipartinn í gær. Fólkið, sem mótmælti framferði Útlendingastofnunar í garð hælisleitenda hér á landi, sinnti ekki tilmælum lögreglu um að fara af svæðinu og var því handtekið.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var fólkinu sleppt úr haldi í gærkvöldi. Fimm gengust undir sátt en í henni felst að greiða 10 þúsund króna sekt fyrir að brjóta gegn lögreglulögum. Tveir hinna handteknu sættust ekki við þessa leið og mega því búast við að verða ákærðir.

Þess má geta að sambærileg mótmæli áttu sér stað fyrir utan heimili Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra, helgina þar á undan.

Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti, segir að þegar menn vilji gagnrýna stefnu stjórnvalda í umdeildum málum geti þeir nýtt sér tjáningafrelsi til að lýsa opinberlega yfir harðri gagnrýni á stefnu stjórnvalda eða háttsemi tiltekinna embættismanna. Í þessu tilfelli stangist hins vegar á tvenns konar réttindi.

Haukur Guðmundsson, forstjóri Útlendingastofnunar, vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa hafði samband við hann í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×