Innlent

Borgarfulltrúar fara í leikhús þeim að kostnaðarlausu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Borgarleikhúsið er í Kringlunni.
Borgarleikhúsið er í Kringlunni.
Borgarfulltrúar fá aðgang að leiksýningum í Borgarleikhúsinu þeim að kostnaðarlausu. Miðaverð á hverja almenna sýningu er 3450 krónur. Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG, sem hefur gagnrýnt boð til borgarfulltrúa um laxveiði í Elliðaánum, segir að menn verði að spyrja sig hvar mörkin liggi þegar kemur að slíkum boðum til kjörinna fulltrúa. „Hvað á að þiggja og hvað ekki?" spyr Þorleifur.

Hann segist sjálfur hafa þegið boð um leikhúsferðir. „Mér hefur fundist þetta vera svona ákveðin virðing við starfsemi leikhússins sem er í eigu borgarinnar," segir Þorleifur. Þá bendir hann á að af leikhúsboðsmiðunum þurfi ekki endilega að hljótast af aukinn kostnaður fyrir leikhúsið því sætin í leikhúsinu séu ekki alltaf fullnýtt.

Að þessu leyti sé málið ólíkt boði um veiði í Elliðaánum. „Mér finnst ekki við hæfi að Orkuveitan sé að taka frá heila viku í Elliðaánum og bjóða borgarfulltrúum og völdum starfsmönnum til veiða," segir Þorleifur. Þá segist Þorleifur ekki hafa þegið boð frá hestamannafélögum og golfklúbbum þegar boð frá þeim hafi borist. „Ég hef ekki þegið það. Mér finnst þá líka sumir vera komnir á annan stað en aðrir varðandi aðgang að borgarfulltrúum," segir Þorleifur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×