Lífið

Hríseyjarsund á koppinn

benedikt hjartarson 
fréttablaðið/arnþór
benedikt hjartarson fréttablaðið/arnþór

„Frábært framtak. Vonandi komið til að vera. Ég stökk strax til þegar spurt var hvort ég vildi vera með. Þó ég sé að vinna um helgina. Þarf bara að redda mér flugi norður, synda og svo til baka aftur," segir Benedikt Hjartarson bakari og sjósundskappi.

Mikil fjölskyldu- og skemmtihátíð verður í Hrísey þarnæstu helgi. Fullveldishátíð. Í tengslum við hátíðina stendur til að efna til sérstaks Hríseyjarsunds og hefur Benedikt, helstur sundkappa Íslands, skráð sig til þátttöku á hrisey.net. Keppt verður í tveimur flokkum - skemmtiflokki þar sem hjálpartæki eru leyfileg og svo í flokki sundkappa. Vonir standa til að stór hópur taki þátt enda á sjósund vaxandi vinsældum að fagna á Íslandi.

Benedikt hefur einmitt í vetur verið að aðstoða nýliða sem leggja fyrir sig sjósund og segir að um tvö hundruð manna hópur hafi mætt vikulega. „Ég er ekki í sérstakri þjálfun núna en hef verið að koma sundmönnum í sjóinn í vetur."

Benedikt vann sér til frægðar fyrir ári að synda yfir Ermarsund. Þó loftlínan þar á milli sé 33 kílómetrar synti Benedikt 61 kílómetra og var 16 klukkutíma og eina mínútu á leiðinni. Hríseyjarsund er rúmir tveir kílómetrar þannig að það vex bakaranum ekki í augum. „Þokkalegur sundmaður er að synda kílómetra á 20 mínútum. Við gerum ráð fyrir því að þetta taki betri sundmenn 35 mínútur og uppúr. Þetta er hæfileg vegalengd og staður sem er fallegur að líta frá hafi," segir Benedikt sem segist lengi hafa haft í huga að ákjósanlegt gæti verið að efna árlega til Hríseyjarsunds.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.