Innlent

Alda innbrota á höfuðborgarsvæðinu

Alda innbrota gengur nú yfir höfuðborgarsvæðið og er talið að um skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða í sumum tilfellum. Versnandi efnahagur er hugsanlega hluti af vandanum, segir yfirlögregluþjónn.

Í morgun var tilkynnt um að minnsta kosti sjö innbrot, bæði í bíla og fyrirtæki, á höfuðborgarsvæðinu og er það til marks um ástandið. Helgarnar eru verstar og virðist það orðin regla frekar en undantekning að þá sé tilkynnt um upp undir 40 innbrot. Engin einföld skýring virðist vera á þessari þróun.

Aukningin hófst um mitt síðasta ár og hugsanlegt að þetta sé ein birtingarmynd slæms efnahagsástands.

Bráðabirgðatölur frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sýna að 280 innbrot voru framin í desember síðast liðnum. Í sama mánuði árinu áður voru innbrotin 119. Fjöldinn er þó sveiflukenndur, en línuritið segir sína sögu. Þjófarnir virðast skæðastir í svartasta skammdeginu.

,,Myrkrið er vinur brotamannsins og bið fólk að huga að því kringum heimili, fyrirtæki og stofnanir að huga að lýsingu og innbrotavörnum eins og kostur er," segir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Innbrotum í heimili og fyrirtæki fjölgar mest og í sumum tilfellum er grunur um vandlega úthugsuða brotastarfsemi.

,,Það eru ummerki á stöðum sem svipar mjög til á milli staða þannig að við teljum að í einhverjum tilvikum sé um skipulagða glæpastarfsemi að ræða," segir Friðrik Smári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×