Erlent

Flugstjórinn var síðastur frá borði

Flugstjórinn sem nauðlenti farþegaþotu sinni á Hudson fljótinu í New York fór síðastur frá borði eftir að hafa fullvissað sig um að enginn farþegi væri eftir.

Það var um tveim mínútum eftir að A320 farþegaþotan fór í loftið sem báðir mótorarnir misstu afl. Talið er að þeir hafi stíflast þegar vélin flaug í gegnum fuglager. Flugmennirnir sendu út neyðarkall og flugumferðarstjórar buðu þeim að snúa aftur til La Guardia flugvallar.

Aflvana flugvélar missa bæði hraða og hæð í beygjum og hinn 57 ára gamli Chasley Sullenburger flugstjóri taldi útilokað þeir næðu að svífa aftur til La Guardia. Það hefði kostað 180 gráðu beygju . Hann bað um að fá að nauðlenda á Teterboro flugvelli sem var þeim á vinstri hönd í aðeins um 90, gráðu beygju.

Þegar til kom þóttist hann sjá að þeir næðu ekki þangað heldur. Þá ákvað hann að lenda á Hudson fljóti.

Við farþegana sagði Sullenburger; "Búið ykkur undir skell því við erum að fara niður."

Airbus 320 þotan sveif niður að fljótinu og orrustuflugmaðurinn fyrrverandi sveigði henni mjúklega til og frá þartil hann var yfir miðju fljótinu.

Farþegar hafa lýst sjálfri lendingunni sem töluverðum skelli, en einn sagði að hann hefði ekki verið mikið meiri en við aftanákeyrslu í bíl.

Vélin flaut á fljótinu og farþegar og flugfreyjur opnuðu alla neyðarútganga. Sumir fóru út á vænginn en aðrir sátu á uppblásnum flóttarennum í dyrunum. Enginn skelfing greip um sig og farþegarnir hjálpuðu hvor öðrum við að komast út.

Nálægar ferjur og bátar fóru á fullri ferð að vélinni og byrjuðu að bjarga farþegunum um borð.

Björgunarsveitir voru sömuleiðis fljótar á vettvang og fóru inn í vélina til þess að sækja þá sem af einhverjum ástæðum komust ekki út af sjálfsdáðum.

Síðastur til að yfirgefa vélina var Chesley Sullenberger. Hann fór ekki frá borði fyrr en hann hafði gengið tvisvar um farþegarýmið til þess að fullvissa sig um að þar væri enginn eftir.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×