Lífið

Bókaútgefendur æfir yfir endursöluherferð Pennans

Kristján B. Jónasson, formaður Félags bókaútgefenda, segir Pennann og þar með ríkið vera að varpa sprengju inn á markað sem neytendur hafi verið ánægðir með.
Kristján B. Jónasson, formaður Félags bókaútgefenda, segir Pennann og þar með ríkið vera að varpa sprengju inn á markað sem neytendur hafi verið ánægðir með.

„Menn eru ekki ánægðir. Og þetta er ekki bara einhver afmarkaður hópur bókaútgefenda heldur er breið samstaða meðal bókaútgefenda um þetta," segir Kristján B. Jónasson. Hann er þarna að vísa í endursöluherferð Pennans þar sem viðskiptavinum gefst kostur á að koma með kiljur frá árinu 2007 til 2009, selja hvert stykki fyrir 200 krónur og kaupa aðrar skilabækur á 400 krónur.

Inneignarnótur er síðan hægt að nota til að fjárfesta í nýjum bókum eða öðrum varningi sem Penninn selur. Bókaútgefendur telja að með þessu sé Penninn að gefa bóksölu sumarsins langt nef.

Kristján segir þetta átak óskiljanlegt í augum útgefanda. Þeir hafi ekki einu sinni verið látnir vita. „Rétt er að taka það fram að þetta átak stendur yfir í einn mánuð, júlí. Í þeim mánuði seljast hins vegar flestar kiljur því Íslendingar eru á faraldsfæti þá, júlí er hálfgerður kiljumánuður. En nú mun enginn kaupa sér kilju heldur koma allir með þær gömlu og skipta þeim fyrir einhverja aðra gamla. Á meðan rykfalla nýju kiljurnar við hliðina," Kristján segir jafnframt óskiljanlegt að fyrirtæki sem sé í eigu ríkisins sé að standa í svona loftfimleikum. „Maður spyr sig hvort ekki væri réttara að það styddi við samfélagið í stað þess að varpa einhverri sprengju inn á þennan markað sem neytendur hafa verið svo ánægðir með," segir Kristján og bendir á að verð á kiljum hafi lítið sem ekkert hækkað.

Bryndís Loftsdóttir, vörustjóri Pennans, telur ótta bókaútgefenda ástæðulausan. „Þetta hefur vakið alveg stormandi lukku, fólk hefur verið að nýta sér þetta sem góðan afslátt upp í nýjar bækur," segir Bryndís og bætir við að menn ættu bara að bíða og sjá. „Við vitum það alveg að fólk sækist eftir nýjum bókum og þetta átak á eftir að örva þann markað til muna," heldur Bryndís áfram og bendir jafnframt á að þetta gæti hugsanlega orðið til þess að starfsfólkið sjái jafnvel Íslendinga í bókabúðum yfir sumartímann. „Við erum ofsalega ánægð með viðtökurnar og fólk er ekki síður þakklátt, það getur nú hreinsað út úr hillunum og rýmt fyrir nýju lestrarefni. Þetta er einhver óþarfa taugatitringur hjá bókaútgefendum."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.