Erlent

Skattsvik eru dauðasök í Kína

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Úr dómsal kínverska hæstaréttarins.
Úr dómsal kínverska hæstaréttarins.
Engin þjóð tekur fleiri af lífi árlega en Kínverjar, en nú vilja þeir fækka aftökum með því að veita fleiri skilorðsbundna dauðadóma, að því er Zhang Jun, varaformaður kínverska hæstaréttarins, segir í samtali við ríkisfjölmiðil þar í landi.

Fyrir tveim árum fékk hæstiréttur landsins heimild til að endurskoða dauðadóma lægri dómstiga, og hefur það þegar skilað árangri.

Kínversk stjórnvöld gefa ekki út tölur yfir aftökur, en ríkisfjölmiðlar landsins segja þær aldrei hafa verið færri en eftir þá ráðstöfun.

Mannréttindasamtökin Amnesty segja sjö af hverjum tíu aftökum fara fram í Kína og 1.718 manns hafa verið tekna af lífi árið 2008.

Um sextíu brot eru dauðasök í kína, þar á meðal skattsvik og fjárdráttur.

Zhang segir ómögulegt að útrýma dauðarefsingum alfarið eins og sakir standa, en hins vegar sé mikilvægt að í réttarkerfinu sé slíkum dómum stjórnað gaumgæfilega.

Hann segir hæstarétt vinna að því að tryggja að enginn hljóti dauðarefsingu nema glæpir þeirra séu sérlega alvarlegir eða viðurstyggilegir og hafi haft miklar samfélagslegar afleiðingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×