Fótbolti

Fjögur lið komast á HM í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Portúgal á ekki möguleika á að komast á HM í kvöld en þurfa að vinna Möltu án Cristiano Ronaldo til að komast í umspilið. Ronaldo er meiddur.
Portúgal á ekki möguleika á að komast á HM í kvöld en þurfa að vinna Möltu án Cristiano Ronaldo til að komast í umspilið. Ronaldo er meiddur. Nordic Photos / AFP

Leikið verður í undankeppni HM 2010 í knattspyrnu í fjórum heimsálfum í dag og í kvöld. Fjögur lið munu tryggja sér farseðilinn á HM.

Lokaumferð undankeppninnar fer fram í Evrópu og Ameríkuálfunum í kvöld. Tvö Evrópulið og tvö Ameríkulið munu tryggja sér sæti í úrslitakeppni HM eins og lesa má um hér að neðan.

Í næsta mánuði ræðst það svo endanlega hvaða 32 lið keppa í Suður-Afríku á næsta ári þegar umspilsleikir verða háðir víða um heim.



Evrópa:



Sæti á HM: 13

Ræðst í kvöld: 2 sæti.

Þegar komin áfram: Danmörk, Þýskaland, Spánn, England, Serbía, Ítalía og Holland.

Lykilleikir í kvöld:

1. riðill:

Portúgal - Malta

Svíþjóð - Albanía

Danmörk er búið að tryggja sér efsta sæti riðilsins. Portúgal er í öðru sæti með sextán stig, einu meira en Svíþjóð. Portúgal dugir því sigur á Möltu til að ná öðru sætinu.

2. riðill:

Grikkland - Lúxemborg

Sviss - Ísrael

Sviss er í efsta sæti riðilsins með þriggja stiga forystu á Grikkland. Grikkir munu sennilega vinna Lúxemborg og það nokkuð stórt og því þarf Sviss helst stig gegn Ísrael á heimavelli í kvöld til að tryggja sér efsta sæti riðilsins. Ísrael á enn möguleika á öðru sæti riðilsins en þarf þá að stóla að Grikkir vinni ekki Lúxemborg.

3. riðill:

Tékkland - Norður-Írland

Pólland - Slóvakía

San Marino - Slóvenía.

Slóvakía er í efsta sæti riðilsins með nítján stig, tveimur meira en Slóvenía. Slóvakar eiga þó erfiðan útileik gegn Póllandi í kvöld á meðan að Slóvenía ætti að eiga sigurinn vísan gegn San Marínó. Jafntefli dugir Slóvökum sennilega ekki og þurfa þeir því að vinna Pólverja á útivelli í kvöld.

6. riðill:

Andorra - Úkraína

Kasakstan - Króatía

Englendingar hafa þegar tryggt sér efsta sæti riðilsins en það ræðst í kvöld hvort það verði Úkraína eða Króatía sem kemst í umspilið. Úkraína er með átján stig, Króatía sautján. Bæði lið ættu að vinna sína leiki í kvöld og er því Úkraína í sterkri stöðu.



Suður-Ameríka:

Sæti á HM: 4 eða 5

Ræðst í kvöld: 1 sæti.

Þegar komin áfram: Brasilía, Paragvæ og Chile.

Lykilleikir í kvöld:

Úrúgvæ - Argentína

Chile - Ekvador

Argentína er sem stendur í fjórða sæti riðilsins með 25 stig og Úrúgvæ kemur næst með 24 stig. Það lið sem sigrar í leiknum í kvöld kemst því áfram á HM.

Jafntefli dugar Argentínu nema að Ekvador vinni Chile með minnst fimm marka mun. Ekvador er í sjötta sæti riðilsins með 23 stig.

Liðið sem endar í fimmta sæti riðilsins mætir liðinu sem verður í fjórða sæti undankeppninnar í Norður- og Mið-Ameríku í umspili.



Asía og Eyjaálfa:

Sæti á HM: 5

Þegar komin áfram: Ástralía, Japan, Suður-Kórea og Norður-Kórea.

Barein mætir Nýja-Sjálandi (sigurvegara undankeppninnar í Eyjaálfu) í umspili um sæti á HM. Liðin mættust á heimavelli Barein um helgina og lauk leiknum með markalausu jafntefli. Þau mætast í Nýja-Sjálandi í næsta mánuði.



Norður- og Mið-Ameríka:

Sæti á HM: 3 eða 4

Ræðst í kvöld: 1 sæti.

Þegar komin áfram: Bandaríkin og Mexíkó.

Lykilleikir í kvöld:

El Salvador - Hondúras

Bandaríkin - Kostaríka

Kostaríka er í þriðja sæti riðilsins með fimmtán stig. Hondúras er í því fjórða með þrettán. Kosturíku dugar ekki jafntefli í sínum leik ef Hondúras vinnur í El Salvador og þarf því helst að vinna Bandaríkin á útivelli í kvöld til að sleppa við umspilið.

Liðið í fjórða sæti riðilnsins mætir liðinu sem verður í fimmta sæti undankeppninnar í Suður-Ameríku í umspili.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×