Enski boltinn

Sex eða sjö vikur í Rosicky

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tomas Rosicky í leik með Arsenal.
Tomas Rosicky í leik með Arsenal. Nordic Photos / Getty Images
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, á von á því að Tomas Rosicky verði kominn aftur á fullt skrið eftir 6-7 vikur.

Rosicky hefur átt við slæm meiðsli á vöðva aftan í læri að stríða og hefur verið frá í meira en eitt ár.

„Ég er nýkominn frá honum. Hann er í þessum töluðu orðum út á velli," sagði Wenger í samtali við heimasíðu félagsins í kvöld. „Hann æfði með bolta í fyrsta sinn í langan tíma í vikunni og við erum allir nokkuð jákvæðir varðandi hans stöðu."

„Hann á góðan möguleika á því að spila á nýjan leik eftir sex eða sjö vikur."

Rosicky kom til Arsenal árið 2006 en hann spilaði síðast með liðinu þann 26. janúar á síðasta ári - í bikarleik gegn Newcastle. Hann missti einnig af EM síðastliðið sumar vegna meiðslanna en hann er tékkneskur landsliðsmaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×