Innlent

Bróðir árásarmanns tekinn

Lögreglan á höfuð­borgarsvæðinu handtók á fimmtudag mann sem sterklega er grunaður um að tengjast alvarlegu líkamsárásarmáli. Bróðir þess handtekna hafði áður verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 29. júní vegna málsins.

Árásin átti sér stað í Smá­íbúðahverfinu 21 júní síðastliðinn. Lögregla var kvödd til og reyndist þar vera maður, alblóðugur á höfði.

Hann var fluttur á spítala til aðhlynningar, brotinn í andliti með marga langa og gapandi skurði á höfðinu. Auk þess var hann með ýmiss konar áverka á höfði, brjóstkassa og útlimum.

Í kjölfarið fór lögregla að tilteknu húsi í Smáíbúðahverfinu. Þar inni mátti glögglega sjá merki um líkamsárás; blóð úti um allt og blautan þvegil, blóði drifinn. Í ruslatunnu við húsið fannst blautt og blóðugt handklæði. Við yfirheyrslur kom í ljós að sá sem nú er í gæsluvarðhaldi hefði setið með bróður sínum og fórnar­lambinu að drykkju í húsinu.

Fimm manns voru handteknir vegna málsins en fjórum sleppt fljótlega.

Sá sem tekinn var á fimmtudaginn var yfirheyrður samdægurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×