Erlent

Tugir á spítala eftir að kona sprautaði ilmvatni

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Umbúðirnar eru gjarnan sakleysislegar en innihaldið getur þó verið varhugavert.
Umbúðirnar eru gjarnan sakleysislegar en innihaldið getur þó verið varhugavert.

Rúmlega 30 voru fluttir á sjúkrahús í Fort Worth í Texas eftir eiturefnaslys sem reyndist eiga sér óvenjulegar rætur.

Slökkvilið borgarinnar og aðrir viðbragðsaðilar fóru þegar að gera ráðstafanir þegar tilkynnt var um tugi starfsmanna í símaþjónustuveri fyrirtækis nokkurs sem kvörtuðu yfir sljóleika, höfuðverk og ógleði fyrr í vikunni. Óttast var að kolsýringur eða annað hættulegt efni læki um bygginguna og voru þegar gerðar ráðstafanir til að rýma hana.

Menn urðu því dálítið kindarlegir þegar uppspretta þessa stórskaðlega eiturefnis fannst loksins en það var ilmvatnsglas í eigu eins starfsmannsins. Og reyndar kom það á daginn að þegar farið var að rifja upp hvernig þetta byrjaði allt saman hafði það einmitt verið eftir að manneskjan dró ilmvatnið upp og dældi því yfir sig eftir kúnstarinnar reglum.

Slökkviliðisstjórinn sagði að smitandi ótti hefði svo valdið hálfgerðri ofsahræðslu sem magnaði allt saman upp enda voru 34 fluttir á sjúkrahús með öndunarerfiðleika og hina og þessa verki. Ekki hefur fengist uppgefið hvaða ilmvatnstegund var þarna á ferð en fullyrða má að notkun þess á mannmörgum vinnustöðum sé stórvarasöm, jafnvel banvæn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×