Innlent

Byssu beint að Íslendingi í vopnuðu ráni í Danmörku

Lögreglubifreið fyrir utan húsnæði gullsmiðsins Ole Lynggaard í morgun þar sem Jóhannes Ottósson starfar.
Lögreglubifreið fyrir utan húsnæði gullsmiðsins Ole Lynggaard í morgun þar sem Jóhannes Ottósson starfar. MYND/Ekstra Bladet

Jóhannes Ottósson, 33 ára gamall gullsmiður, varð fyrir þeirri óskemmtilegu lífreynslu í dag að vopnað rán var framið á vinnustað hans í Kaupmannahöfn. Skammbyssu var beint að andliti hans. Tveir menn dulbúnir sem póstburðarmenn komust inn á skrifstofu fyrirtækisins og höfðu í hótunum við starfsmenn þess.

Jóhanns hefur búið í Danmörku í átta ár með eiginkonu sinnu. Þar af seinustu sex ár við nám hjá hjá gullsmiðnum Ole Lynggaard og síðar sem starfsmaður. Fyrirtækið er einn stærsti framleiðandinn á sínu sviði í Skandinavíu með yfir 70 starfsmenn.

Ræningjarnir þekktu vel til

Myndavélar eru utan á húsnæði gullsmiðsins og er þeim meðal annars beint að eina inngangnum í húsið. Jóhannes segir að starfsfólk á skrifstofunni hafi ekki kannast við póstburðarmennina og því hafi samstarfsmaður hans tekið sér stöðu við neyðarhnapp þegar þeir komu inn.

„Um leið og þeir komu inn sást að þeir voru með grímur þannig að hún þrýsti á takkann en þá fékk hún byssu í andlitið." Jóhannes segir að fjórir aðrir starfsmenn hafi verið skrifstofunni sem hafi verið hótað og grýtt fram og til baka. „Ræningjarnir vissu greinlega hvar allt var því þeir gengu beint að peningaskápnum sem í voru hlutir sem voru tilbúnir," segir Jóhannes. Ræningjarnir voru með bláa burðarpoka úr IKEA sem þeir fylltu af tilbúnum vörum.

„Þá fékk ég byssuna í andlitið"

Á meðan á þessu stóð var Jóhannes staddur á verkstæðinu við vinnu sína. „Ég þurfti að fara upp á skrifstofu að ljósrita og þegar ég gekk inn voru þeir að klára að tæma skápinn. Þá rífur annar þeirra burðarpokann með sér, hleypur öskrandi á móti mér og skipar mér að leggjast niður annars deyi ég. Hinn kom strax á eftir honum og þá fékk ég byssuna í andlitið."

Jóhannes segir atburðinn hafa vera súrelískan og eitthvað sem hann hafi alls ekki átt von á að upplifa sjálfur þrátt fyrir að hafa margoft horft á keimlík atriði í kvikmyndum.

Ræningjarnir komust undan

Í framhaldinu hlupu ræningjarnir út. Jóhannes vill ekki gefa upp heildarverðmæti ránsfengsins. Ræningjarnir komust undan á stolinni silfurgrárri BMW bifreið sem fannst skömmu síðar mannlaus. Leit lögreglu af þeim hefur ekki borið árangur.

Jóhannes segir að eðli málsins hafi dagurinn litast af ráninu. Hann kveðst vera afar þakklátur danska kerfinu því innan við tveimur tímum eftir ránið var búið að veita starfsfólkinu fyrstu hjálp og sálfræðingur mættur á vinnustaðinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×