Innlent

Himnar loga og hús nötra á Þingvöllum

Himnar loga á Þingvöllum
Himnar loga á Þingvöllum Mynd/ Eyþór
Arndísi Guðnadóttur og fjölskyldu brá heldur betur í brún þegar sumarbústaður sem þau dvelja í fór að nötra eftir að þrumur og eldingar skullu á. Arndís hélt fyrst að eldingu hefði lostið niður í bústaðinn en svo var ekki. Himnarnir loga hreinlega á Þingvöllum að sögn Arndísar og gengur á með miklum skúrum.

„Það var eins og það kæmu bylgjur á bústaðinn og allt nötraði og skalf hérna. Fyrst hélt ég að eldingu hefði slegið niður í bústaðinn en sem betur fer var það ekki raunin," segir Arndís sem stödd er á Þingvöllum í sumarbústað í landi Miðfells. „Þetta er búið að vera þvílíkt sjóv í svona hálftíma."

Áður en hann skall á með rigningu var tuttugu gráðu hiti þar sem Arndís dvelur. Hún varð þó vör við þunga skýjabakka yfir Lyngdalsheiði sem færðust yfir svæðið sem hún dvelur á. Þá byrjuðu þrumur, eldingar og hávaðaskúrir. Þegar Arndís varð vör við titringinn kallaði hún til manns í næsta bústað sem sagði henni að það sama hafi verið uppi á teningnum hjá henni - allt nötrað.

Arndís segist hafa séð ungt barn að leik við vatnið sem hafi hlaupið skelfingu lostið í fang móður sinnar þegar veðrið skall á. „Við erum með einn lítinn fimm ára gutta frá Seyðisfirði með okkur og honum finnst þetta algert sport. Hefur aldrei kynnst öðru eins."

Skýjabakkarnir sem byrjuðu á Lyndalsheiði eru nú að mjakast upp í Grafning. Arndís segist ekki hafa orðið hrædd. „Nei, þetta er bara gaman."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×