Innlent

Fullyrðingar framsóknarmanna ekki á rökum reistar

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. Mynd/Anton Brink
Fullyrðingar framsóknarmanna um að Íslendingum standi til boða lán frá Noregi framhjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eru ekki á rökum reistar. Þetta kom fram í máli forsætisráðherra á Alþingi í morgun. Ráðherra sakaði framsóknarmenn um sérkennilegan málatilbúnað.

Framsóknarmenn fullyrtu í utandagskrárumræðu á Alþingi í morgun að meirihluti væri á norska stórþinginu fyrir lánafyrirgreiðslu til Íslands framhjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Vísuðu framsóknarmenn í fundi sem þeir áttu með norskum þingmönnum í síðustu viku.

„Norðmenn eru fullir velvilja í garð Íslendinga. Þeir segja hinsvegar að ef að Íslendingar vilja lán óháð lánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þá þurfi að berast formleg beiðni frá Íslendingum um slíkt það er mergurinn málsins," sagði Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks. Hann sagði ennfremur að Samfylkingin hafi beitt sér vísvitandi gegn málinu með blekkingum og áróðri.

„Að halda því fram að forsætisráðherra Íslands sé að berjast gegn hagsmunum þjóðarinnar. Þetta er auðvitað slíkur þvættingur. Ég spyr, er þetta virkilega framlag hans og Framsóknarflokksins til uppbyggilegrar rökræðu á Íslandi sem formaður Framsóknarflokksins segir flokkinn bera skyldu til að tryggja," sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á Alþingi í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×