Innlent

Aldrei meira amfetamín tekið á einu ári

Papeyjarmálið var stærsta fíkniefnamál ársins.
Papeyjarmálið var stærsta fíkniefnamál ársins. MYND/Pjetur

Lögreglan hefur aldrei lagt hald á jafnmikið af amfetamíni og á þessu ári eða um áttatíu kíló. Það er átta sinnum meira en í fyrra. Þá var lagt hald á hátt í tólf þúsund kannabisplöntur á árinu.

Megnið af því sem lögregla haldlagði af amfetamíni á árinu var gert upptækt í Papeyjarmálinu. Það var í apríl sem að þrír menn reyndu að smygla til landsins 55 kílóum af amfetamíni, 54 kílóum af kannabisefnum og rúmlega 9 þúsund e-töflum til landsins. Mennirnir tóku skútu á leigu í Belgíu og sigldu hingað til lands með fíkniefni. Þeir voru handteknir um borð í skútunni við Papey eftir að hafa gert tilraun til að flýja undan Landhelgisgæslunni.

Í gögnum frá Ríkislögreglustjóra sést að alls lagði lögreglan hald á áttatíu kíló af amfetamíni á árinu. Það er töluvert meira magn en árið 2008 en þá var lagt hald á tæp ellefu kíló af amfetamíni.

Nokkuð minna var tekið af kókaíni í ár en í fyrra eða rúm þrjú kíló. Þá ar lagt hald á rúmar tíu þúsund e-töflur á árinu sem er mun meira en í fyrra. Megnið var haldlagt í Papeyjarmálinu.

Mun minna var tekið af hassi á árinu en árið 2008 eða 26 kg. Í fyrra voru 233 kíló tekin. Mestur hluti efnanna fannst þegar upp komst um smygl Þorsteins Kragh og félaga hans frá Hollandi á tvö hundruð kílóum af hassi til landsins í húsbíl með Norrænu.

Þá lagði lögregla hald á tæplega 12 þúsund kannabisplöntur á árinu og 55 kíló af marijúna. Fréttir af húsleitum þar sem fundnar voru kannabisplöntur voru áberandi á árinu en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði framleiðslu á um fimmtíu slíkum stöðum. Plönturnar fundust í húsleitunum og umtalsvert af efnum sem tilbúin voru til sölu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×