Erlent

Óvissu um Lissabonsáttmála ESB lokið

Lét sig hafa það Vaclav Klaus var tregur til að undirrita sáttmálann, en lét þó verða af því í gær þegar úrskurður var fenginn frá stjórnlagadómstól Tékklands.fréttablaðið/AP
Lét sig hafa það Vaclav Klaus var tregur til að undirrita sáttmálann, en lét þó verða af því í gær þegar úrskurður var fenginn frá stjórnlagadómstól Tékklands.fréttablaðið/AP

Vaclav Klaus, forseti Tékklands, undirritaði í gær Lissabonsáttmála Evrópusambandsins, strax eftir að stjórnlagadómstóll Tékklands hafði komist að þeirri niðurstöðu að sáttmálinn bryti ekki í bága við stjórnarskrá landsins.

Þar með hafa öll aðildarríki sambandsins staðfest sáttmálann og ekkert er því til fyrirstöðu lengur að hann taki gildi.

Klaus var tregur til að undirrita sáttmálann, og ítrekaði í gær að hann væri sannfærður um að Tékkland yrði ekki lengur fullvalda ríki þegar sáttmálinn hefði gengið í gildi.

Hann sá sér þó ekki fært annað en að undirrita, þar sem þjóðþing landsins hafði staðfest sáttmálann og stjórnlagadómstóllinn auk þess hafnað því að hann bryti í bága við stjórnarskrána. Töluverð óvissa var um framtíð sáttmálans eftir að Írar felldu hann í þjóðaratkvæðagreiðslu á síðasta ári. Í byrjun október gengu Írar aftur til atkvæðagreiðslu, eftir að Evrópusambandið hafði komið til móts við helstu óánægjuatriðin, og samþykktu þá sáttmálann.

Lech Kaczynski Póllandsforseti var, rétt eins og Klaus í Tékklandi, tregur til að undirrita sáttmálann, en gerði það þó í síðasta mánuði eftir að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar á Írlandi varð ljós.

Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagðist óskaplega ánægður með niðurstöðuna. Nú yrði hægt að hraða vali á bæði forseta leiðtogaráðsins og talsmanni utanríkismála, en þetta eru tvö ný embætti sem munu setja svip sinn á Evrópusambandið eftir að Lissabonsáttmálinn tekur gildi.

Leiðtogar annarra Evrópusambandsríkja lýstu einnig ánægju sinni með niðurstöðuna í Tékklandi.

Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, sem nú fer með formennsku í ráðherraráði sambandsins, sagðist ætla að kalla saman leiðtogafund hið fyrsta, nú þegar óvissan um Lissabon-sáttmálann væri úr sögunni.

Lissabonsáttmálanum er ætlað að einfalda ákvarðanatöku í Evrópusambandinu. Hann gengur þó skemmra en stjórnarskrársáttmálinn, sem felldur var í þjóðaratkvæðagreiðslu bæði í Frakklandi og Hollandi. gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×