Erlent

STASI fylgdist með Michael Jackson

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Fáa hefði víst fáa grunað að nafn Michaels Jackson heitins væri að finna í skjölum austur þýsku leyniþjónustunnar STASI. Svo er þó.

Ekkert lát er á fróðlegum upplýsingum um Michael Jackson núna eftir andlát hans. Komið er upp úr kafinu að Jackson rataði inn í skýrslur hjá austurþýsku leynilögreglunni STASI eftir að hann hélt tónleika við Brandenborgarhliðið í Berlín í júní 1988, steinsnar vestan við Berlínarmúrinn sem þá stóð enn.

Yfirmenn leynilögreglunnar höfðu þungar áhyggjur af því að ungt fólk í austurhlutanum færi inn á bannsvæðið við múrinn til þess að hlusta á tónleikana. Gæti fólkið þannig orðið fyrir vestrænum áhrifum sem á þeim tíma þótti alvarlegt mál. Til að fyrirbyggja slíkt slys hugðist STASI ginna aðdáendur frá múrnum og lengst inn í hjarta Austur-Berlínar með því að sýna tónleikana á risaskjá þar, þó með tveggja mínútna seinkun á útsendingunni þannig að ritskoðarar hins opinbera gætu brugðið skjótt við og stöðvað sýninguna yrðu þeir varir við andkommúnískan áróður af einhverju tagi. Þá átti að skipta í snarheitum yfir á upptöku af eldri tónleikum sem búið væri að ritskoða.

Af þessu varð þó aldrei. Einfaldara þótti að hafa her lögreglumanna við múrinn austan megin sem sæju um að dreifa þeim múg sem að múrnum kæmi og var það gert. Umfangsmikil skýrsla var gerð um málið og Jackson þar með orðinn nafn í skjalageymslum STASI.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×