Innlent

Kosningaskýring: Samningsstaða VG hefur versnað

Friðrik Indriðason skrifar: skrifar

Þótt Vinstri grænir geti vel unað við kosningaútslitin, enda auka þeir þingmannafjölda sinn um fjóra menn, er staðreyndin samt sú að samningsstaða þeirra hefur versnað. Einkum hvað varðar aðildarviðræður við Evrópusambandið sem var höfuðstefnumál Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni.

Jóhanna Sigurðardóttir formaður Samfylkingarinnar benti á það í kvöld að ef úrslitin standi sé kominn þingmeirihluti fyrir aðildarviðræðunum. Þetta er ekki alveg nákvæmt því a.m.k. þrír af núverandi þingmönnum Framsóknarflokksins eru gallharðir ESB andstæðingar og keyrðu kosningabaráttu sína m.a. á þeim nótum. Þessir þingmenn munu þó styðja forystu flokksins ef möguleiki er á stjórnarþátttöku með því að samþykkja ESB viðræður.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á von á því að stjórnarsamstarf Samfylkingarinnar og Vinstri grænna verði endurnýjað ef stjórnin fær eins stóran meirihluta og fyrstu tölur benda til. Samkvæmt fyrstu tölum eru stjórnarflokkarnir með 36 manna meirihluta. Hinsvegar á eftir að semja um framhald samstarfsins og það gæti reynst erfitt.

Spurning er hvernig Vinstri grænir ætla að bregðast við stöðunni og hvort eða hve mikið þeir eru tilbúnir að gefa eftir hvað varðar ESB. Meðal annars má velta þeim möguleika upp að þeir fallist á að þingmannafrumvarp, en ekki stjórnarfrumvarp, verði lagt fram um aðildarviðræðurnar og þá ráði meirihluti á þingi hvort af viðræðunum verður eða ekki.

Það er allavega ljóst að Samfylkingin mun knýja á um að farið verði í aðildarviðræður strax en ekki beðið með málið eins og hugur Vinstri grænna hefur staðið til.

Það er greinilega vilji af hálfu beggja stjórnarflokkanna að halda samstarfinu áfram og spennandi verður að sjá hvernig lendingu forystumenn Samfylkingarinnar og Vinstri græna ná í ESB málinu. Samfylkingin hefur í bakhöndinni að semja við Borgarahreyfinguna og Framsókn um stjórnaraðild en sá kostur þykir snöggtum lakari en áframhaldandi samstarf við Vinstri græna.

Þótt Vinstri grænir hafi ekki náð því fylgi sem skoðanakannanir gáfu til kynna bætir flokkurinn við sig sama þingmannafjölda og Samfylkingin. Og Steingrímur J. Sigfússon formaður flokksins má vel við una í kjördæmi sínu. Er þetta raunar í fyrsta sinn sem Vinstri grænir fá fyrsta þingmann kjördæmis í sögu flokksins.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á von á því að stjórnarsamstarf Samfylkingarinnar og Vinstri grænna verði endurnýjað ef stjórnin fær eins stóran meirihluta og fyrstu tölur benda til.

Álitsgjafar: Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur, Bjarni Harðarson bóksali, Svanborg Sigmarsdóttir blaðamaður, Birgir Guðmundsson kennari, Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×