Innlent

Frávísun hælisleitanda frestað

Mótmælendur hafa beint spjótum sínum að dómsmálaráðherra, eftir að ráðuneyti hennar vísaði fjórum hælisleitendum sem hingað höfðu komið til Grikklands.
Mótmælendur hafa beint spjótum sínum að dómsmálaráðherra, eftir að ráðuneyti hennar vísaði fjórum hælisleitendum sem hingað höfðu komið til Grikklands.

Að beiðni Mannréttindadómstóls Evrópu hefur dómsmála- og mannréttindaráðuneytið frestað áður ákveðinni frávísun hælisleitanda til Grikklands. Maðurinn, sem er flóttamaður frá Afganistan, er einn fjögurra sem ráðuneytið ákvað í septemberlok að vísa til Grikklands.

Í tilkynningu ráðuneytisins kemur fram að maðurinn, sem fór í felur fyrir helgi þegar í ljós kom að senda ætti hælisleitendurna til Grikklands, hafði kært ákvörðun ráðuneytisins til Mannréttindadómstólsins á föstudag. Samdægurs barst beiðni frá dómstólnum um að fresta frávísuninni á grundvelli 39. greinar málsmeðferðarreglna dómstólsins.

„Niðurstaða ráðuneytisins um að senda mál þessara fjögurra hælisleitenda til efnismeðferðar í Grikklandi er í samræmi við þau almennu viðmið sem gilda um mál af þessum toga og kynnt voru í júní síðastliðnum, það er að skoðað verði hvert tilvik fyrir sig og aðstæður viðkomandi einstaklings metnar áður en ákvörðun er tekin um endursendingu til Grikklands.Á grundvelli þessara sömu viðmiða hefur til að mynda mál fjölskyldu með ungbarn verið tekið til meðferðar hér á landi sem ella hefði farið til Grikklands,“ segir í tilkynningu.

Dómsmálaráðuneytið segist fresta frávísun mannsins þar til niðurstaða liggur fyrir um hvort mál hans verði tekið til meðferðar hjá Mannréttindadómstólnum eða dómur í málinu gengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×