Lífið

Atli samdi fyrir Nixon/Frost

Atli Örvarsson var hluti af teymi Hans  Zimmer sem semur tónlistina við stórmyndina Frost/Nixon en líklegt þykir að hún hreppi tilnefningu til Óskarsins.
Atli Örvarsson var hluti af teymi Hans Zimmer sem semur tónlistina við stórmyndina Frost/Nixon en líklegt þykir að hún hreppi tilnefningu til Óskarsins.

Íslenska tónskáldið Atli Örvarsson kom að gerð tónlistarinnar við kvikmyndina Nixon/Frost. Lærimeistari Atla, Hans Zimmer, er opinberlega skráður fyrir tónlistinni en Atli var í hópnum sem samdi hana. Nixon/Frost hefur fengið lofsamlega dóma, var meðal annars tilnefnd til Golden Globe sem besta mynd ársins. Tapaði þar fyrir Slumdog Millionaire í leikstjórn Danny Boyle. Hún er engu að síður sögð líkleg til að hljóta Óskarstilnefningu þegar þær verða tilkynntar 22. janúar.

Atli hefur áður unnið með Hans Zimmer við gerð tónlistar við vinsælar myndir. Ber þar helst að nefna síðustu myndina í sjóræningja-þríleiknum Pirates of the Caribbean og Simpsons: The Movie auk hinnar ofurvinsælu Iron Man með Robert Downey Jr. í aðalhlutverki. „Allir þessir stóru karlar í þessum geira hafa heilan her af aðstoðarmönnum í kringum sig en fæstir af þeim gefa lærlingunum einhverja viðurkenningu. Zimmer er hins vegar mikill snillingur og gefur öllu sínu starfsfólki kredit,“ sagði Atli við Fréttablaðið þegar hann hafði nýlokið við að semja tónlist með Zimmer við sjóræningjamyndina.

Atli hefur að undanförnu unnið að gerð sinnar eigin tónlistar við kvikmyndir á borð við Vantage Point, Babylon AD og nú síðast Thick as Thieves en hún skartar hjartaknúsaranum Antonio Banderas í aðalhlutverki auk óskarsverðlaunahafans Morgan Free-man. Samkvæmt vef imdb.com fæst Atli nú við tónlist kvikmyndarinnar The 4th Kind en aðalhlutverkið í þeirri mynd er í höndunum á Millu Jovovich. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.