Innlent

Vill að Flosi og Ómar íhugi að víkja sem bæjarfulltrúar

Ólafur Þór Gunnarsson, læknir, er bæjarfulltrúi VG í Kópavogi.
Ólafur Þór Gunnarsson, læknir, er bæjarfulltrúi VG í Kópavogi.
Bæjarfulltrúi Vinstri grænna í Kópavogi telur eðlilegt að bæjarfulltrúarnir Flosi Eiríksson og Ómar Stefánsson íhugi stöðu sína sem bæjarfulltrúar í ljósi fréttar Morgunblaðsins í gær þess efnis að þeir hafi sem stjórnarmenn í Lífeyrissjóði starfsmanna Kópavogsbæjar vitað að ekki væru allar upplýsingar gefnar til Fjármálaeftirlitsins.

Fjármálaeftirlitið kærði stjórn lífeyrissjóðsins til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra 19. júní vegna gruns um brot á lífeyrissjóðalögum og almennum hegningarlögum. Stjórnin er sökuð um að hafa beitt blekkingum og gefa Fjármálaeftirlitinu rangar upplýsingar um lánveitingar sjóðsins.



Gögn matreidd fyrir stjórn lífeyrissjóðsins


Flosi Eiríksson,bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur sagt að gögnum hafi verið haldið leyndum og þau matreidd fyrir stjórn sjóðsins, meðal annars varðandi upplýsingagjöf til Fjármálaeftirlitsins. Ómar Stefánsson, formaður bæjarráðs og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, hefur tekið undir þá gagnrýni.

Í Morgunblaðinu í gær er vitnað í tölvupósta sem fóru á milli stjórnarmanna og framkvæmdastjóra lífeyrisjóðsins. Þar segir að stjórnarmönnum hafi verið kunnugt um að ekki væru allar upplýsingar upp gefnar til Fjármálaeftirlitsins.

Ef rétt reynist er komin upp ný staða



Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi Vinstri grænna í Kópavogi, segir að hafi svo verið sé komin upp ný staða í málinu. „Ómar og Flosi hafa hins vegar sagt mér að þeir hafi ekki haft þessar upplýsingar og að þeim hafi verið haldið til hlés í upplýsingagjöf."

Bæjarfulltrúinn bendir á að málið sé á rannsóknarstig og að tilsjónarmaður sjóðsins sé að fara yfir öll gögn varðandi málið. Því sé varhugavert að vera með stórar yfirlýsingar á þessum tímapunkti.

Ómar og Flosi íhugi stöðu sína

Stjórn Vinstri grænna í Kópavogi samþykkti fyrir helgi ályktun þar sem segir að réttast væri að allir þeir kjörnu fulltrúar er sátu í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar víki úr sæti sínu í bæjarstjórn á meðan lögreglurannsókn fer fram.

Ólafur telur eðlilegt að Flosi og Ómar íhugi sína stöðu sem bæjarfulltrúar. Að mörgu leyti væri skynsamlegt að víkja og halda sér til hlés á meðan að rannsókn standi yfir. Það verði Ómar og Flosi hins vegar að meta sjálfir þar sem þeir hafi meiri upplýsingar en þeir bæjarfulltrúar sem sátu ekki í stjórn lífeyrissjóðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×