Enski boltinn

Brottvísun Scolari kom Ferguson á óvart

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United. Nordic Photos / AFP
Alex Ferguson segir að sér hafi komið mjög á óvart að Chelsea hafi ákveðið að reka Luiz Felipe Scolari úr starfi knattspyrnustjóra eins og gert var í gær.

Chelsea gerði um helgina markalaust jafntefli við Hull og það virðist hafa fyllt mælinn hjá Roman Abramovich, eiganda Chelsea, sem er sagður hafa tekið þessa ákvörðun einn og óstuddur.

„Þetta kom mér mjög á óvart. Hann tók við starfinu fyrir bara sjö mánuðum síðan. Þetta er tímanna tákn. Það er engin þolinmæði í heiminum núna," sagði Ferguson í samtali við MUTV.

Hann segir einnig að enska slúðurpressan auðveldi ekki knattspyrnustjórum lífið. „Þetta virðist allt vera meira viðkvæmt núna. Það er ekki alltaf hægt að skella skuldinni á fjölmiðla en þeir eiga sinn hlut í þessu."

„Götublöðin eru að keppa við internetið og fréttastofur eins og Sky News og þurfa því alltaf að gera mikið mál úr hlutunum þegar úrslit liðs eru slæm. Það voru miklar væntingar gerðar til Chelsea á þessu tímabili en þeim hefur ekki gengið illa fyrr en nú á síðasta mánuði."


Tengdar fréttir

Scolari rekinn frá Chelsea

Luiz Felipe Scolari þjálfari Chelsea hefur verið rekinn frá félaginu. Það er Sky fréttastofan sem segir frá þessu en frammistaða liðsins á þessu tímabili er sögð ástæða uppsagnarinnar. Chelsea situr nú í fjórða sæti deildarinnar sjö stigum á eftir toppliði Manchester United. John Terry fyrirliði liðsins bað stuðningsmenn afsökunar eftir markalaust jafntefli við Hull City um helgina.

Rijkaard spenntur fyrir Chelsea

Umboðsmaður Frank Rijkaard hefur viðurkennt í enskum fjölmiðlum að Rijkaard myndi íhuga tilboð ef það kæmi frá Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×