Innlent

Léttskýjað og létt lund um páska

Sigurður Þ. Ragnarsson
Sigurður Þ. Ragnarsson

Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur segir von á hæglátu páskaveðri en þó ekki sérlega hlýju þar sem við siglum í næstu viku í kaldara loft eftir að hafa notið vorviðrisdaga.

„En hér sunnanlands verður meira að segja hægt að næla sér í sólbrúnku ef einlægur vilji er fyrir hendi," segir hann kankvís. Aðeins dregur fyrir sólu á suðurhluta landsins á laugardag fyrir páska en páskavikan verður nokkuð þungbúnari norðanlands. Á suðurhluta landsins ætti hitastigið, að sögn Sigurðar, að haldast fyrir ofan frostmark en fer líklegast lítillega undir það norðanlands.

„Það verður sem sagt hæglætis­veður en það mikilvægasta er að geðslag landsmanna verður með afbrigðum gott," segir hann.

„Þannig er mál með vexti að loftþrýstingurinn verður hár eða yfir þúsund millibörum." Sigurður hefur safnað upplýsingum um þetta og segir það alveg ljóst að bein tengsl séu á milli loftþrýstings og lundarfars fólks. „Þegar loftþrýstingur er fallandi líður fólki verst, þá er dumbungur í veðri og lundarfari. Fólk fær þá jafnvel hausverk og önnur óskemmtilegheit. En þegar hann er hár er stutt í brosið og góða skapið. Það verður því brosað breitt þessa helgina. Geðvísitalan er há, og ekki veitir af í þessu ástandi," segir hann.- jse








Fleiri fréttir

Sjá meira


×