Innlent

Íslendingur hlýtur viðurkenningu á sviði Microsoft samskiptalausna

Aðalsteinn Rúnarsson, fyrir miðri mynd, með prófskírteinið.
Aðalsteinn Rúnarsson, fyrir miðri mynd, með prófskírteinið.

Aðalsteinn Rúnarsson, sérfræðingur hjá EJS, náði nýlega þeim merka áfanga að verða fyrsti Íslendingurinn til að fá prófskírteini fyrir sérþekkingu á sviði samskiptalausna (Unified Communications) en Aðalsteini bauðst að taka þátt í sérstöku námskeiði á því sviði sem haldið var í Danmörku.

Námskeiðið var eingöngu í boði fyrir þá sem hvað lengst eru komnir í þekkingu á samskiptalausnum Microsoft og lauk því með prófi sem er áfangasigur í þekkingu á Microsoft Unified Communications.

Miklar kröfur eru gerðar til sérfræðinga sem sækja nám á þessu stigi hjá Microsoft. Bæði þurfa þeir að hafa talsverða starfsreynslu á viðkomandi sviði og einnig að hafa lokið mörgum prófum á fyrri stigum Microsoft-námsins. Aðalsteini var boðið til námskeiðsins vegna fyrri reynslu hans á Microsoft-samskiptatækni og í tengslum við innleiðingu EJS á Office Communications Server 2007 R2, nýjustu lausn Microsoft á þessu sviði.

Í prófgráðu Aðalsteins felst sérþekking á Microsoft Office Communications Server (OCS). Það er samskiptalausn sem tvinnar saman símtækni og tölvusamskipti á borð við tölvupóst og spjallforrit og veitir þannig starfsfólki betri yfirsýn og stjórn á samskiptamáta sínum heldur en hefðbundið fyrirkomulag þar sem síma- og tölvusamskipti eru aðskilin.

Mikill vöxtur hefur verið á þessu sviði og eru mörg fyrirtæki og stofnanir á Íslandi nú að innleiða Microsoft OCS-lausnir.

Aðalsteinn segir að námið sem var undanfari prófskírteinisins muni reynast vel í komandi verkefnum á þessu sviði. „Þetta var krefjandi námskeið þar sem lögð var jöfn áhersla á kennslu og verkefnavinnu sem lauk svo með prófi. Ég bjó að góðri reynslu í innleiðingu OCS í starfi mínu hjá EJS og því hafðist þetta allt saman nokkuð örugglega. Það er auðvitað gaman að vera sá fyrsti hér heima til að ná þessum áfanga og sér í lagi á þessu sviði sem greinilega er vaxandi þessa dagana."

„Samskiptalausnir Microsoft eru í mjög örum vexti og því ber að fagna að sérþekking aukist jafnhliða á þessu sviði hér á landi. Dæmin hafa sýnt að innleiðing OCS geti verið helsta lausn fyrirtækja og stofnana til sparnaðar á mörgum sviðum og eins og gefur að skilja er eftirspurn eftir slíkum hagræðingarlausnum mikil nú um stundir," segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×