Lífið

Fær stuðning frá Microsoft

Microsoft býður almenningi upp á ókeypis niðurhal af nýjasta lagið Þórs, Sunny Day.
Microsoft býður almenningi upp á ókeypis niðurhal af nýjasta lagið Þórs, Sunny Day.

Fyrirtækið Microsoft býður almenningi upp á frítt niður­hal á lagi Þórs Breiðfjörð Kristinssonar, Sunny Day. Í hópi með Þór eru flytjendur á borð við Warren G og The Lemonheads.

„Þetta er meiri háttar. Ég er ofboðslega spenntur," segir Þór Breiðfjörð Kristinsson. Stór­fyrir­tækið Microsoft býður almenningi upp á frítt niðurhal af nýjasta smáskífulagi hans, Sunny Day, á heimasíðu sinni, Myspace.com/windows. „Þetta er enginn milljónasamningur sem ég fæ í vasann en þeir eru að setja helling að peningum í að kynna þetta."

Þór var valinn ásamt eitt þúsund öðrum flytjendum víðs vegar að úr heiminum til að taka þátt í nýju markaðsátaki á netinu. Samkvæmt samningi Microsoft verður tugum milljóna eytt í að kynna tónlist þeirra og vekja um leið athygli á auknum áhuga fyrirtækisins á tónlist. Boðið verður upp á ókeypis niðurhal á einu lagi frá hverjum listamanni í 120 daga en þrátt fyrir það fá þeir greitt fyrir hvert niðurhal. Á meðal annarra flytjenda sem voru valdir í verkefnið eru rapparinn Warren G og hljómsveitin The Lemonheads.

„Ég er alveg himinlifandi yfir þessu og þetta er vonandi eitt af skrefunum í að koma tónlistinni minni út í heiminn. Það er ekki verra að byrja með svona sumarlagi," segir Þór. Hann veit ekki hvernig Microsoft hafði uppi á sér en grunar þó að vera hans á síðunni Reverbnation.com hafi haft eitthvað um það að segja. „Þetta er ekki slæmt. Maður situr hérna og er að vinna í net­kynningu og ýmsum málum. Maður er að ýta boltanum hægt af stað og svo dettur eitthvað svona inn."

Þór er búsettur í Nova Scotia í Kanada en lék áður í söngleikjum á West End í London. Hann gaf á síðasta ári út sína fyrstu sólóplötu, Running Naked, og er Sunny Day annað smáskífu­lagið af henni. Hann býst ekki við því að halda tónleika hér á landi á þessu ári en eitthvað tónleikahald er fyrirhugað í Kanada. Nánari upplýsingar um Þór má sjá á heimasíðu hans Thorkristinsson.com.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.