Innlent

Erum aldrei búin undir viðburði sem þessa

Erindi um Berlínarmúrinn og hugmyndafræði Austur-Evrópu verður flutt í Norræna húsinu í dag.
Erindi um Berlínarmúrinn og hugmyndafræði Austur-Evrópu verður flutt í Norræna húsinu í dag.

„Ég man hverja einustu mínútu kvöldið sem múrinn féll. Ég þurfti eins og aðrir að klípa mig í handlegginn til að trúa að þetta væri að gerast. Ég myndi hins vegar ekki vilja skipta á neinum happdrættisvinningi og því að hafa verið viðstaddur,“ segir Ágúst Þór Árnason, doktor í réttarheimspeki og kennari við Háskólann á Akureyri.

Ágúst Þór flytur erindi á vegum Samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál (SVS) og Varðbergs í Norræna húsinu í dag. Erindið ber yfirskriftina „Múrbrot horfinnar hugmynda­fræði – 20 ár frá falli Berlínarmúrsins“.

„Ég reyni í erindi mínu að tengja heimsviðburð við eigin upplifun en segja má að fall múrsins sé einhver merkilegasti stjórnmálaviðburður seinni tíma. Bæði var þetta upphaf endaloka austur-evrópsks kommúnisma og byrjun þeirrar hnattvæðingar sem hefur verið á mikilli siglingu síðustu árin. Hins vegar var erfitt að útskýra múrinn fyrir fólki sem ekki þekkti til fyrir 20 árum og í dag er það enn erfiðara. Þessi atburðarás – að menn skyldu byggja múr utan um milljónaborg í miðri Evrópu – er auðvitað svo ótrúleg.“

Fundurinn hefst klukkan 12. Björn Bjarnason, formaður SVS, flytur einnig erindi á fundinum. Fundarstjóri verður Stefán Einar Stefánsson, formaður Varðbergs. Áhugafólk um öryggis-, varnar og alþjóðamál er hvatt til að sækja fundinn.- jma




Fleiri fréttir

Sjá meira


×