Lífið

Býttiátak hjá Eymundsson

Bryndís Loftsdóttir vörustjóri.
Bryndís Loftsdóttir vörustjóri.

„Þetta er ekkert aprílgabb, við ætlum að byrja í dag að taka á móti öllum íslenskum og erlendum vasabrotsbókum sem gefnar hafa verið út árið 2007 eða síðar og greiða fólki 200 kr. fyrir stykkið í formi inneignar­nótu,“ segir Bryndís Lofts­dóttir, vörustjóri hjá Eymundsson.

„Inneignar­nótuna er svo hægt að nota upp í nýjar eða notaðar bækur eða aðrar vörur sem fáanlegar eru í verslunum okkar. Hugmyndin kom frá mætum bóksala úr okkar röðum en líkt og kaffihús og langur afgreiðslutími bókaverslana hefur þetta auðvitað þegar verið reynt erlendis.“

Í framkvæmd er þetta keimlíkt skiptibókamarkaði námsbóka sem hefur tíðkast hér um áratugaskeið. „Við lágum lengi yfir þessu en sáum ekkert nema jákvæða vinkla á hugmyndinni. Auralitlir lesendur þurfa ekki að örvænta lestrarlaust sumar, þeir geta einfaldlega komið eldri bókum sínum í verð og keypt aðrar í þeirra stað og við fáum líf og fjör í verslanir okkar.

Bókaútgefendur hræðast ef til vill að þetta dragi úr sölu á nýjum bókum en það tel ég vera ástæðulausan ótta því fólk getur einmitt komið með gömlu kiljurnar sínar og keypt splunkunýjar bækur í staðinn,“ segir Bryndís og er brött að vanda. Eina skilyrðið sem Eymundsson setur er að bækurnar séu í kiljuformi, í sölulegu ástandi og útgefnar á árunum 2007 til 2009.

Bækurnar munu þeir hjá Eymundsson svo selja aftur á 400 krónur stykkið en jafnframt bjóða þriðju bókina fría svo hægt verður að kaupa þrjár kiljur fyrir 800 krónur, sem er vel boðið og í anda okkar tíma. Býttiátakið mun standa allan júlí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.