Innlent

Dagur: Miðborgarklúður sjálfstæðismanna

Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, er oddviti flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, er oddviti flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. Mynd/Daníel Rúnarsson
Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, segir að félagið Miðborg Reykjavíkur sem meirihluti borgarstjórnar „stofnaði með látum" í upphafi kjörtímabils verði nú lagt niður og annað félag stofnað í staðinn. Þetta sé gert að kröfu óánægðra kaupmanna sem telji árangur félagsins ófullnægjandi. Um er að ræða miðborgarklúður sjálfstæðismanna, að mati Dags.

Í bókun Samfylkingarinnar í borgarráði í dag segir að markmið breytinganna hafi alla tíð verið óljós, hugur hafi ekki fylgt máli og nú væri verið að hverfa til baka til fyrra horfs. Fulltrúi minnihlutans í stjórn félagsins hafi lagt á það ríka áherslu að tengja þyrfti starfsemi félagsins betur við starf Höfuðborgarstofu. Fram kemur í bókuninni að kaupmenn hafi tekið vel í þá hugmynd sem og yfirstjórn Höfuðborgarstofu.

„Frómt frá sagt hefur áhugi meirihlutans á félaginu verið afar lítill og framtíð þess verið óljós um langt skeið. Til marks um það hefur enginn aðalfundur hefur verið haldinn í félaginu frá stofnun þess," segir í bókuninni.

Að mati Samfylkingarinnar er mikilvægt að kaupmenn í miðborginni eigi sér öflug samtök. „Sameiginlegir hagsmunir miðborgarkaupmanna eru samofnir hagsmunum Reykjavíkurborgar, hvað varðar menningu, mannlíf, viðburði og framkvæmdir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×