Erlent

Greifi þungt haldinn eftir morðtilræði

Carl Piper greifi.
Carl Piper greifi.
Sænskur greifi sem er góðvinur konungsfjölskyldunnar liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi eftir morðtilræði. Fyrrverandi eiginkona hans hefur verið handtekin.

Carl Piper greifi er einn af ríkustu mönnum Svíþjóðar og er í nánu sambandi við sænsku konungsfjölskylduna.

Síðastliðinn þriðjudag var hann skotinn mörgum skotum fyrir utan skóla tveggja dætra sinna í Stokkhólmi. Ný kærasta hans sem gengur með barn þeirra særðist einnig alvarlega. Árásarmaðurinn hvarf af vettvangi á skellinöðru.

Sænska lögreglan hefur nú handtekið fyrrverandi eiginkonu greifans og grunar hana um að hafa fengið leigumorðingja til þess að skjóta bæði eiginmanninn fyrrverandi og nýju kærustuna hans.

Skilnaður hjónanna fyrir nokkrum árum var erfiður og þau hafa meðal annars átt í harðri forræðisdeilu um dæturnar tvær.

Carl Piper rekur aðalsætt sína mörghundruð ár aftur í tímann. Hann hefur lengst af búið í einni af elstu höllum Svíþjóðar sem gjarnan er kölluð draugahöllin vegna skrautlegrar forsögu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×