Innlent

Málin þurfa að koma upp á yfirborðið

Helgi Hjörvar bendir á fyrri svör sín aðspurður út í styrkjamál sín.
Helgi Hjörvar bendir á fyrri svör sín aðspurður út í styrkjamál sín.
Helgi Hjörvar, frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík, var einn þeirra 17 einstaklinga sem fékk fjárstuðning frá Baugi og FL Group fyrir prófkjör 2006. Helgi fékk 900 þúsund krónur eftir því sem fram kemur á vef DV í dag. Helgi segir að fréttirnar varðandi styrki frá Baugi og FL Group eigi ekki að koma á óvart.

Hann vísar á svar sitt í Fréttablaðinu 17. desember síðastliðnum en þar sagði hann aðspurður að einstaklingar og fyrirtæki hafi stutt framboðið með styrkjum en um einstaka styrkveitingar hafi á þeim tíma ríkt trúnaður. „Um styrktaraðila má þó almennt segja að sá hluti þeirra sem eru hagmunaaðilar voru einkum bankar, fjármálafyrirtæki, eignarhaldsfélög og fjárfestar í slíkum fyrirtækjum," sagði Helgi þá við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Helgi segir greinilegt að mál af þessu tagi verði að koma upp á yfirborðið. „En ég ætla ekki að fjalla um styrki sumra fyrirtækja til sumra einstaklinga nokkrum dögum fyrir kosningar," sagði Helgi í samtali við fréttastofu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×