Innlent

Hittu Obama-hjónin á Havaí á jóladag

Fær litinn sinn Barack Obama Bandaríkjaforseti og kona Michelle spjalla við Önnu Soffíu og yngri son hennar, Thorarinn Edward, á jóladag. Forsetinn hafði nýlokið við að rétta Thorarni vaxlit sem sá stutti missti í gólfið.  Fréttablaðið/AP
Fær litinn sinn Barack Obama Bandaríkjaforseti og kona Michelle spjalla við Önnu Soffíu og yngri son hennar, Thorarinn Edward, á jóladag. Forsetinn hafði nýlokið við að rétta Thorarni vaxlit sem sá stutti missti í gólfið. Fréttablaðið/AP

Fjölskylda Önnu Soffíu Jóhannsdóttur Ryan hitti Barack Obama Bandaríkjaforseta og Michelle, eiginkonu hans, á jóladag. Eiginmaður Önnu Soffíu er yfirmaður í sjóher Bandaríkjanna og staðsettur á Havaí.

Forsetafjölskyldan á heimili skammt frá herstöðinni, en Obama er frá Havaí.

Þetta er annað árið í röð sem fjölskyldan hittir Bandaríkjaforseta á þessum degi, en Obama og eiginkona hans eyddu um þremur klukkustundum með hermönnunum og fjölskyldum þeirra.

Eiginmaður Önnu Soffíu heitir John Michael Ryan, en synir þeirra, Thorarinn Edward og William Patrik, eru tveggja og þriggja ára gamlir. Karen H. Jónsdóttir, móðir Önnu Soffíu, segir nokkurn samgang milli íbúa í herstöðinni og Obama-fjölskyldunnar. Þannig hafi Anna Soffía brugðið sér í mínigolf á sunnudag og þá hafi forsetinn komið þar að og leikið golf á næstu braut. „Hann á heimili þarna rétt hjá þeim við ströndina,“ segir hún.

Móðir Önnu Soffíu segir að dóttir sín og John Michael, maður hennar, hafi kynnst hér á landi, en þau giftu sig í Keflavíkurkirkju árið 2003. Eiginmaður Önnu Soffíu var hér með sjóhernum, en var svo sendur til Íraks og víðar. Að þeim tíma loknum flutti Anna Soffía út til hans, en þau hafa búið í Lundúnum, Washington og nú síðast á Havaí. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×