Innlent

Skrýtið að semja um launahækkanir

Ari Skúlason
Ari Skúlason

Þórarinn V. Þórarinsson, sem var framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands þegar þjóðarsáttin var gerð, segir skrýtið að samið sé um launahækkanir í stöðugleikasáttmálanum.

„Ég geng þó út frá því að það sé það gjald sem greiða þurfti til að tryggja frið á vinnumarkaði út 2010," segir Þórarinn.

Mikilvægt er að samstaða hafi náðst á takmörkun skattahækkana ríkisstjórnarinnar, að mati Þórarins. Skattahækkanir verða 45 prósent af aðgerðunum. Þrýstingur var að hafa hlutfallið hærra.

Ákveðið öryggi er fólgið í því að kominn sé stuðningur við þær aðgerðir sem styðja þarf við, að sögn Þórarins. Við afnám gjaldeyrishafta skiptir þó máli að búið verði að grípa til ráðstafana sem styðja við gengi krónunnar.

Spurður um hvort einhverjar hættur séu í sáttmálanum segir Þórarinn Íslendinga eiga mjög mikið undir því að staðinn sé vörður um lífeyrissjóðskerfið. „Það verður mikið verkefni að verja þá stöðu og verja framtíðina í kerfinu," segir Þórarinn.

Ari Skúlason, sem var forstöðumaður hagdeildar Alþýðusambandsins á tímum þjóðarsáttar, segir sáttmálann vonandi vera fyrsta jákvæða skrefið af mörgum.

Hann segir hættumerki ekki áberandi í sáttmálanum. Aðallega sé verið að tryggja frið á vinnumarkaði og annað hangi á því. „Það er svo hlutverk stjórnvalda að halda utan um sáttmálann og efna hann," segir Ari.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×