Innlent

Vilja þjóðaratkvæði um Icesave

Allir þingmenn Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar vilja að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort staðfesta eigi nýja ríkisábyrgð vegna Icesave skuldbindinganna. Þetta er önnur tillagan sem er lögð fram á Alþingi um að þjóðin kjósi um málið.

Þingmennirnir vilja að eftirfarandi spurning verði lögð fyrir almenning í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu: „Á Alþingi Íslendinga að samþykkja breytingar á ríkisábyrgð á skuldbindingum Landsbanka Íslands hf. vegna Icesave-reikninganna, sbr. frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/2009."

Í greinargerð með tillögunni segir að mikilvægt sé að spurningin sjálf komi fram í tillögugreininni svo að framsetning spurningarinnar vefjist ekki fyrir þeim þingmönnum sem greiða atkvæði um tillöguna. Þannig færi spurningin því óbreytt í dóm þjóðarinnar.

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram breytingartillögu í gær við frumvarp ríkisstjórnarinnar sem felur í sér að ríkisábyrgðin taki ekki gildi fyrr en hún hljóti samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þriðja og síðasta umræða um Icesave frumvarp ríkisstjórnarinnar hófst á nýjan leik í morgun. Þegar þetta er ritað eru 16 á mælendaskrá en ákveðið var á fundi forseta Alþingis með þingflokksformönnum í gærkvöldi að ganga til atkvæða um frumvarpið á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×