Lífið

Íslenskir tónlistarmenn flytja nýtt lag til styrktar Mæðrastyrksnefnd

Óskar Einarsson og hluti úr Gospelkór Reykjavíkur taka þátt í að styrkja Mæðrastyrksnefnd.
Óskar Einarsson og hluti úr Gospelkór Reykjavíkur taka þátt í að styrkja Mæðrastyrksnefnd.

Nýtt lag er komið út og skartar nokkrum af bestu söngvurum og hljóðfæraleikurum landsins. Lagið heitir „Það birtir til" og er eftir tónlistarmanninn, lagahöfundinn og útvarpsmanninn Ívar Halldórsson. Í fyrra gaf hann frá sér lagið „Colors of Love" í tilefni 20 ára afmælis ABC barnahjálpar sem Regína Ósk söng af mikilli prýði og „Fullkomna vera" sem hann söng sjálfur.

Nú hefur hann fengið til liðs við sig söngvarana Friðrik Ómar, Guðrúnu Gunnars, Margréti Eir, Pál Rósinkrans, Regínu Ósk, Sjonna Brink og Heru Björk, hljóðfæraleikarana Guðlaug Briem, Jóhann Ásmundsson, Sigurgeir Sigmundsson og Óskar Einarsson og hluta úr Gospelkór Reykjavíkur en markið er nú sett á að vekja athygli á því góða starfi sem Mæðrastyrksnefnd vinnur í dag.

„Á tímum erfiðra áskoranna í efnahagslífinu langaði mig til að láta gott af mér leiða og fékk með mér góða tónlistarmenn til að standa saman og stappa stálinu í landann og um leið styrkja Mæðrastyrksnefnd sem hefur einmitt verið ljósgeisli í myrkrinu fyrir svo ótal marga Íslendinga á erfiðum tímum", segir Ívar um tilurð lagsins.

Ívar ítrekar að allir söngvarar og hljóðfæraleikarar voru sammála um að gefa tíma sinn í þetta verkefni til að undirstrika samstöðu, vináttu og hlýhug milli Íslendinga þegar sólin hefur horfið á bak við skýin í tilveru margra. Texti lagsins hvetur fólk til að gefast ekki upp því að það birtir bráðum til.

Fólk er hvatt til að ná í lagið inn á vefsíðuna tonlist.is þar sem allur ágoði af niðurhali þessa lags rennur óskertur til Mæðrastyrksnefndar.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.