Innlent

Þingmenn VG styðja frumvörp um persónukjör með fyrirvara

Magnús Már Guðmundsson skrifar

Þingflokkur Vinstri grænna styður frumvörp um persónukjör til Alþingis- og sveitarstjórnarkosninga með fyrirvara. Þetta kom fram í máli Atla Gíslasonar, þingmanns VG, á þingfundi í dag. Það var Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem innti Atla eftir afstöðu þingflokksins. Athygli vakti í gær að enginn þingmaður Vinstri grænna tók þátt í umræðum um frumvörpin þegar fyrsta umræða um frumvörpin fór fram í gærkvöldi.

Birgir sagði að erfitt væri að átta sig á afstöðu þingmanna VG á þessum frumvörpum og benti á þau væru bæði lögð fram af ríkisstjórninni með samþykki þingflokka stjórnarflokkanna.

„Þetta frumvarp um persónukjör var samþykkt til framlagningar í þingflokknum með fyrirvara," sagði Atli. Hann sagði það í anda nýrra vinnubragða að afgreiða málið með þessum hætti en þannig fengi þingið að fjalla um málið og um leið aukið vægi.

Birgir sagði ljóst að innan þingflokksins væri andstaða við frumvörp ríkisstjórnarinnar um persónukjör. Að auki hefði stjórn Vinstri grænna lýst yfir andstöðu við málið og lagt til að því yrði vísað til umfjöllunar í tengslum við stjórnlagaþing. Birgir benti á að í stjórn VG sætu meðal annars ráðherrarnir Steingrímur J. Sigfússon, Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×