Innlent

Framsóknarmenn gera hlé á fundi sínum

Flokksforysta framsóknarflokksins.
Flokksforysta framsóknarflokksins.

Þingflokkur Framsóknarflokksins gerði hlé á fundi sínum fyrir stundu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður flokksins fer nú á fund Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.

Að sögn Sivjar Friðleifsdóttur þingflokksformanns er gert ráð fyrir að þingflokkurinn komi aftur saman til fundar síðdegis og haldi áfram vinnu sinni, í tengslum við stuðning við fyrirhugaða ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

Stefnt er að því að ný ríkisstjórn taki við völdum á Íslandi á morgun. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna komu saman til fundar í Alþingishúsinu í morgun og eftir þann fund sögðust þau Jóhanna Sigurðardóttir verðandi forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon líklegur fjármálaráðherra að verkáætlun væri tilbúin.

Jóhanna sagði að ákveðið hik hefði komið á stjórnarmyndunina í gær þegar Framsóknarflokkurinn vildi taka sér lengri tíma til að skoða málin.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins hefur sagt að þótt menn væru sammála um markmiðið, hefðu verið að mati Framsóknarmanna, óraunhæfar leiðir í efnahagsaðgerðum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

Jóhanna Sigurðardóttir segir að boðað verði til flokksráðsfunda á morgun og þar yrði endanlega gengið frá málunum. Ráðherralisti flokkanna verður lagður fyrir þingflokka verðandi stjórnarflokka áður en flokksráð þeirra koma saman.




Tengdar fréttir

Steingrímur og Jóhanna funda

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherraefni væntanlegrar ríkisstjórnar og Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna komu saman til fundar upp úr klukkan níu í morgun, til að ræða stöðuna í stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna.

Ný ríkisstjórn líklega mynduð á morgun

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon ræddu við fréttamenn í þinghúsinu fyrir stundu eftir fundi með sínum þingflokkum. Þau sögðu vel hafa verið tekið í verkáætluna væntanlegrar ríkisstjórnar, en stefnt er að því að koma á starfhæfari ríkisstjórn fyrir mánudag. Ráðherralistar liggja ekki fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×