Innlent

Verðtrygging miðist við laun

Verðtryggð húsnæðislán, sem og gengistryggð lán, eru áhættusamningar, sem stjórnvöld hefðu átt að vara almenning við. Þau eru gölluð vara, sem stjórnvöldum ber að endurskoða. Þetta segir Joseph Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði.

Hann segir að tengja ætti verðtryggingu lána við launavísitölu, ekki vísitölu neysluverðs eins og nú er gert. Breyta verði kerfinu og gefa fólki færi á að byrja upp á nýtt, og það verði að gera fljótlega.

„Það er spursmál um skilvirkni, félagslegt réttlæti, félagslega samstöðu og réttsýni," segir Stiglitz í samtali við Fréttablaðið. Mikilvægt sé að leiðrétta skuldir heimilanna án þess að þeir sem ekki hafi tekið áhættu í fjármálum þurfi að borga brúsann.

Íslenska reynslan af hruninu kallar á að nýtt verkfæri verði skapað sem tekur á því þegar laun lækka um leið og verðlag hækkar, segir Stiglitz.

Í stað þess að binda upphæð lána við neysluverð eins og nú sé gert væri betra að binda hana við launaþróun í landinu.

„[Verðtryggingin] tryggði að bankamennirnir fengju útlán sín endurgreidd, en það gleymdist að bankamenn geta því aðeins fengið greitt að lántakandinn sé á lífi. Það var eiginlega ákveðið að drepa lántakandann," segir hann.

Sú hugmynd að tengja fasteignalán launaþróun er ekki ný af nálinni, og íslensk stjórnvöld hafa þegar stigið skref í þessa átt með því að bjóða upp á svokallaða greiðslujöfnun, segir Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra.

Hann segir að vel megi hugsa sér að vera með fasteignalánamarkað sem tengist til dæmis launavísitölu eða vísitölu fasteignaverðs, en það sé á þessu stigi aðeins akademísk umræða. Að sjálfsögðu sé þó hægt að skoða ýmsar leiðir til að leysa úr vanda þeirra sem eigi erfitt með að standa í skilum með lán sín.

„Þetta er skynsamleg leið sem við erum að kanna," segir Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra.

Hann segir það einn af kostunum við þessa hugmynd að hún nýtist öllum og auki ráðstöfunarfé fólksins í landinu. Þó verði að fara betur yfir málið áður en hægt sé að ákveða hvort heppilegt geti verið að stefna að því að gera þessa breytingu.

- kóþ, bjAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.