Íslenski boltinn

Erum ekki búnir að selja Jóhann Berg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhann Berg og Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari.
Jóhann Berg og Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari.

Einar Kristján Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, segir að félagið sé ekki búið að selja Jóhann Berg Guðmundsson til AZ Alkmaar.

Heimildir fréttastofu herma að Jóhann Berg hafi skrifað undir fimm ára samning við AZ en hann er nú staddur í Hollandi.

„Við erum ekki búin að skrifa undir neina samninga," sagði Einar Kristján. „Ég veit því ekki hvernig hann ætti að vera búinn að semja við annað félag."

„Annað vil ég ekki segja. Þetta skýrist fyrir 2. febrúar," bætti hann við en þá lokar alþjóðlegi félagaskiptaglugginn.

Það er því útlit fyrir að sagan endalausa um Jóhann Berg haldi áfram. Hann hefur verið á leið frá Breiðabliki frá því að mótinu lauk í haust og hefur á þeim tíma verið sterklega orðaður við Coventry í Englandi og HSV í Þýskalandi sem og Heerenveen í Hollandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×