Enski boltinn

Ferguson: Benitez á eftir að kaupa og kaupa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafa Benitez og Alex Ferguson.
Rafa Benitez og Alex Ferguson. Nordic Photos / Getty Images
Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, spáir því að Rafael Benitez, kollegi sinn hjá Liverpool, muni fara mikinn á leikmannamarkaðnum nú þegar hann er búinn að skrifa undir langtímasamning við félagið.

Benitez samdi fyrr í vikunni við Liverpool og gildir samningur til loka tímabilsins 2014. Samningaviðræður tóku langan tíma og er talið að eitt helsta deilumálið hafi verið stefna félagsins í leikmannakaupum og -sölum.

„Það er mikið að vera að tala um kreppu en það verður engin kreppa hjá Liverpool í ár," sagði Ferguson í samtali við enska fjölmiðla.

Ferguson svaraði einnig gagnrýni Benitez sem sagði að United hafi eytt mun meira í leikmenn en Liverpool á undanförnum árum.

„Á síðustu fimm árum hefur hann eytt mun meiri pening en við," sagði Ferguson og nefndi töluna 24 milljónir punda.

Fréttastofa BBC tók hins vegar saman hvað stóru félögin fjögur hafa eytt á undanförnum fimm árum í leikmannakaup. Liverpool hefur eytt 82,5 milljónum, United 85,5 milljónum, Chelsea 154,8 milljónum en Arsenal aðeins 3,4 milljónum.

„Við höfum samið við átján nýja leikmenn á síðustu fimm árum og þar af eru átta þeirra ungir leikmenn. Þetta snýst um að halda þessu í jafnvægi enda viljum við fá leikmenn úr unglingastarfi félagsins."

„En þetta er sjónarmið okkar og kannski er Rafa með eitthvert annað sjónarmið. En það er það góða við fótbolta - allir hafa sínar aðferðir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×