Innlent

Loftorka tekin til gjaldþrotaskipta

Loftorka Borgarnesi ehf. lagði í dag inn beiðni til Héraðsdóms Vesturlands um að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þetta kemur fram á fréttavef Skessuhorns.

Á vef Skessuhorns er rætt við Óla Jón Gunnarsson, framkvæmdastjóra Loftorku, sem segir að margar samverkandi aðstæður valdi því að þessi staða sé komin upp. Gríðarlegur samdráttur á byggingarmarkaði sé stærsta ástæðan, þá hrun íslensku krónunnar sem hafi mikil áhrif á skuldastöðu félagsins og í þriðja lagi rekstrarvandræði viðskiptavinda sem þar af leiðandi geti ekki staðið í skilum.

Hjá Loftorku störfuðu undir það síðasta tæplega 70 starfsmenn en voru hátt í 300 þegar mest lét árið 2007. Óli segir að á síðustu vikum hafi legið fyrir að viðskiptabanki fyrirtækisins - Íslandsbanki - sjái ekki grundvöll til að halda rekstrinum áfram. Starfsmönnum mun hafa verið kynnt þessi niðurstaða í dag.

Skessuhorn hefur heimildir fyrir þvi að vilji sé fyrir því meðal heimamanna að allt verði gert til að freista þess að endurvekja rekstur Loftorku, enda hefur fyrirtækið verið stærsti rekstraraðilinn í sveitarfélginu. Nú gerist það hins vegar að skiptastjóri verði settur yfir búið en það er ekki búið að skipa neinn í það embætti.

Fyrirtækið Loftorka var stofnað árið 1962.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×