Íslenski boltinn

Heimir: Handbragð Loga er komið á KR

"Þetta verður erfitt verkefni í kvöld, það er ekki nokkur spurning. KR hefur byrjað vel með þremur sigrum í fjórum leikjum, öfugt við í fyrra þegar þeir voru með þrjú stig eftir fjóra leiki." sagði Heimir Guðjónsson þjálfari FH í samtali við Vísi þegar hann var spurður út í stórleik kvöldsins gegn KR.

KR er á toppnum eftir fjórar umferðir og hefur aðeins fengið á sig eitt mark, en liðinu hefur gengið afleitlega með FH á síðustu árum. KR hefur ekki unnið FH í deildinni síðan árið 2003.

"KR-liðið er mun sterkara núna en í fyrra þannig að við gerum okkur grein fyrir því að þetta verður erfiður leikur. Það var nú talað um það að varnarleikurinn gæti orðið höfuðverkur fyrir KR í sumar en þeir eru ekki búnir að fá á sig nema eitt mark," sagði Heimir.

FH hefur náð að rétta úr kútnum eftir tap í fyrstu umferðinni. Við spurðum þjálfarann hvort hann væri ánægður með gengi sinna manna.

"Þetta hefur aðeins skánað hjá okkur en ég held að við eigum meira inni og getum spilað betur en við höfum verið að gera. Það hefur verið ágætur stígandi í þessu hjá okkur og í síðasta leik var það liðsheildin sem var á bak við þetta, svo þetta er allt í rétta átt," sagði Heimir en hann er ekkert að velta sér upp úr fortíðinni.

"FH fer ekkert í leiki nema til þess að ná í þrjú stig og það er alveg sama á hvaða velli það er. Við spilum svipað heima og úti og það þýðir ekkert að hugsa um hvort við erum með tak á KR eða ekki. Ég hef ekki hugmynd um hvernig stendur á því, en við fáum ekkert fyrir það þó við höfum unnið KR í nokkrum leikjum. KR er líka sterkara núna en það hefur verið," sagði Heimir.

En af hverju er KR sterkara nú að hans mati? "Handbragð Loga Ólafssonar er komið á liðið. Það tekur tíma að setja sinn stimpil á lið og Logi hefur sýnt það hann er góður að búa til lið. Það eru framfarir hjá KR síðan hann tók við og þeir eru bara að verða betri og betri."

Leikur KR og FH hefst klukkan 20 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Alls eru sex leikir á dagskrá í Pepsi-deildinni í kvöld hægt verður að fylgjast með gangi mála á Boltavaktinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×